Hugmynd Hreyfingarinnar um stórfjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík – úr fimmtán í 61 er áhugaverð. Frá henni er sagt á Eyjunni og eins og vænta mátti reka menn upp ramakvein í athugasemdakerfinu. Tillagan er alls ekki galin – en hafa ber í huga að með henni væri verið að gera meira en bara að bæta við stólum í sal borgarstjórnar, hlutverk borgarfulltrúa yrði endurskilgreint verulega.
Um allnokkurt skeið hefur sú stefna verið ríkjandi í borginni að borgarfulltrúar séu atvinnstjórnmálamenn í fullu starfi sem slíkir. Fæstir borgarfulltrúar sinna neinum störfum sem heitið getur utan borgarmálanna. Þetta gefur höfuborginni sérstöðu meðal íslenskra sveitarfélaga. Bæjarfulltrúastörf í öðrum kaupstöðum eru fyrst og fremst tímafrekt áhugamál, þótt vissulega komi nokkrar greiðslur til. Almennur bæjarfulltrúi í Kópavogi eða Hafnarfirði hefur slíkt ekki sem sitt eina starf.
Svona var Reykjavík líka rekin nær alla tuttugustu öldina.
Með 61 borgarfulltrúa í Reykjavík (sem mér finnst nú glannalega há tala) væri augljóslega farið aftur til gamla kerfisins. Allir borgarfulltrúar (fyrir utan kannski forseta borgarstjórnar og/eða 1-2 formenn þungra nefnda) væru í meira eða minna fullu starfi annars staðar. Borgarmálin yrðu þá á ný hobbý frekar en atvinnugrein.
Auðvitað hefur maður tilhneigingu til að taka atvinnumennsku fram yfir áhugamennsku – en er sjálfgefið að niðurstaðan yrði lakari? Hefur stjórn Reykjavíkur verið svo miklu faglegri síðustu árin en hinna stóru sveitarfélaganna? Ég er ekki í aðstöðu til að svara því og eflaust eru rök þar bæði með og á móti. En tillaga Hreyfingarinnar (og eins Framsóknarmanns) á skilið að vera tekin mun alvarlegar en reikna má með að verði gert.