Prestsmálið

Þrjú stærstu málin á Íslandi í dag (ef marka má dálksentimetra í blöðum og á bloggi) eru:

i) Icesave – og þá spurningin um hvort íslenska ríkið sé með samkomulagi dagsins að leggja grunn að fjárhagslegri endurreisn sinni eða hneppa sig í ævarandi skuldafjötra.

ii) Svínaflensa – og þá spurningin um hvort við stöndum frammi fyrir einum stærsta sjúkdómsfaraldri seinni áratuga með möguleikanum á allnokkru mannfalli.

iii) Sr. Gunnar á Selfossi – og þá spurningin um hvort meintur dónakall fái að vera klerkur eða þurfi að vinna á skrifstofu.

…spot the odd one out!

Ég get ómögulega talað mig upp í mikinn hita vegna prestsmálsins. Ástæðan er ekki sú að ég sé ömurlegur karlpungur sem skortir skilning á alvarleika kynferðisafbrotamála. Afstaða mín byggist á eftirfarandi atriðum:

i) Ég tel kynferðislega áreitni – hvað þá gagnvart ungmennum – vera alvarlegan glæp.

ii) Ég er ekki í Þjóðkirkjunni.

iii) Þar sem ég er ekki í Þjóðkirkjunni og er ekki kristinn, þá á ég ákaflega bágt með að sjá mun á stöðu prests og t.d. strætóbílstjóra eða íþróttaþjálfara.

iv) Síðasta atriði er ekki alveg rétt. Strætóbílstjórar gegna t.d. mjög mikilvægri samfélagsþjónustu og í mörgum tilvikum hefur fólk ekki val um að nýta sér þjónustu þeirra.

v) Það er alveg ljóst að mál strætóbílstjóra eða íþróttakennara hefði EKKI fengið allt það pláss sem mál sr. Gunnars hefur fengið í umræðunni. Það er órökrétt.

Niðurstaða: Án þess að leggja efnislegan dóm á prestsmálið á Selfossi, finnst mér að sú orka sem menn hafa eytt í að þrefa um það – jafnvel yfirlýstir trúleysingjar – benda til kerfisbundins ofmats á mikilvægi kirkjunnar og starfsmanna hennar. Hana! Nú bíð ég bara eftir skammargusunum í athugasemdakerfinu…