Vandinn við landnámið

Eyjan segir frá nýrri grein Páls Theodórssonar í Skírni, þar sem því er slegið föstu að landnám Íslands hafi hafist tvöhundruð árum áður en viðtekna söguskoðunin hermir – það er undir lok sjöundu aldar en ekki þeirrar níundu. Skiljanlega eru margir spenntir fyrir svona róttækum hugmyndum og tónninn í umræðunni er dálítið á þann veg að nú hafi raunvísindamaðurinn sagt hugvísindamönnunum til syndanna.

Samkvæmt þessu viðhorfi, eru íslenskir sagnfræðingar blindaðir af aðdáun á Ara fróða og trúa frásögn hans eins og nýju neti. Þegar hávísindalegar kolefnismælingar leiddu að annarri niðurstöðu, reyndu sagnfræðingarnir að hafna mælingunum eða grípa til langsóttra útskýringa á þeim – sem nú hafi verið hraktar. Málið er þó öllu flóknara en svo.

Ég þekki engan sagnfræðing sem telur að landnám Íslands hafi upp á hár borið að á þann hátt sem Ari fróði heldur fram. Þannig dettur varla nokkrum manni í faginu í hug að slá því 100% föstu að Ingólfur Arnarson hafi verið til, að hann hafi átt fóstbróður og látið öndvegissúlur ráða bólstað sínum.

Afstaða flestra er hins vegar á þá leið að Ísland hafi að langmestu leyti byggst undir lok níundu aldar. Það útiloki hins vegar ekki að hingað hafi menn slæðst fyrr og jafnvel haft hér einhverja búsetu. Fólkið sem hingað flutti, hafi komið frá Noregi og byggðum norrænna manna á Suðureyjum – sem og mikill fjöldi írskra þræla og/eða vinnufólks. Þannig sé tímarammi Ara fróða í meginatriðum réttur.

En það er ekki ofurtrú á sannsögli og heimildarmenn Ara sem ráða þessu mati, heldur hitt að margt annað er til að styðja þessa tímasetningu. Ekki hvað síst að hún fellur vel að því sem við vitum um sögu Norður-Evrópu á þessum tíma.

Við vitum nákvæmlega hvenær norrænir menn hófu að herja á Írland í víkingaferðum sínum. Nokkurn veginn um leið og þeir urðu færir um að sigla á skipum sínum með öruggum hætti milli Skandinavíu og Írlands, byrjuðu þeir að rupla og ræna – enda eftir miklu að sækjast. Eigum við að trúa því að norrænir menn hafi verið færir um reglulegar siglingar til Íslands hundrað árum áður en þeir lögðu í að ræna klaustur og bændalýð á Írlandi?

Rannsóknir á erfðafræði Íslendinga ganga vel upp við hefðbundnu söguskoðunina, en samkvæmt þeim eru norrænu byggðirnar á Suðureyjum og blöndun keltnesks og norræns blóðs líklegur upprunastaður þjóðarinnar. Það er erfiðara að skýra ef við færum Íslandssöguna aftur um tvöhundruð ár.

Öskulagafræði, frjókornamælingar, hugmyndir okkar um hvenær Færeyjar tóku að byggjast af norrænum mönnum (menn hljóta fjandakornið að hafa byrjað á að byggja Færeyjar áður en haldið var til Íslands) – allt hnígur þetta í sömu átt.

Kenningar Páls Theodórssonar eru vissulega allrar athygli verðar – en það er alltof mikil einföldun að kenna ofurtrú sagnfræðinga á miðaldaheimildir um það hvers vegna undirtektirnar eru svo dræmar.