Í dag er lokadagurinn til að afþakka greiðslujöfnun í þessari lotu. Fyrirfram hefði ég talið að enn fleiri myndu afþakka en raunin virðist ætla að vera.
Fólk í kringum mig hefur verið að velta vöngum yfir þessu. Ég þekki eiginlega enga sem eru í verulegum vandræðum með lánin sín. Auðvitað myndu flestir eða allir þiggja nokkra þúsundkalla í viðbót í heimilisbókhaldið, en enginn sem ég þekki er í þeirri stöðu að þessi breyting myndi skipta sköpum. Annað hvort er fólk í verri málum en svo – eða það getur látið sig hafa það að borga eftir gamla laginu og myndi því kjósa það frekar en hærri heildargreiðslu.
Samt eru margir hikandi. Ástæðan held ég að sé einkum umræðan um að greiðslutíminn muni aldrei geta lengst um meira en þrjú ár og að það sem þá stæði útaf yrði væntanlega fellt niður. Fólk veltir því þess vegna fyrir sér hvort það sé að missa af möguleikanum á skuldaniðurfellingu með því að afþakka greiðslujöfnunina.
Ég sé samt ekki að þetta geti átt við í mörgum tilvikum. Fólk sem hefur keypt sér eign á síðustu árum hefur í flestum tilvikum tekið lán til einhversstaðar á bilinu tuttugu og fjörutíu ára. Ef um minni íbúð er að ræða, er varla líklegt að hún sé keypt með margra áratuga búsetu í huga.
Sá sem selur eignina sína fyrir lok afborgunartímabil á litla möguleika á að innleysa mögulegar afskriftir – eða hvað? Við slíka sölu, munu menn bara líta á upphæðina sem eftir stendur af láninu.
Það getur vel verið að ég sé að hugsa þetta vitlaust – en í fljótu bragði sýnist mér að vonin um afskriftir þremur árum eftir lok upprunalegs greiðslutíma eigi bara við um þá sem sjá fram á að flytja ekki allan tímann. Er það ekki rökrétt?