Joe Jordan, Henry & dómur sögunnar

Það er enn talsverður hiti í mörgum yfir svindlmarki Frakka gegn Írum á miðvikudaginn. Helst er að skilja á sumum bloggurum að knattspyrnan verði aldrei aftur söm. Bogi Ágústsson þvaðraði um það í útvarpinu að ferill Henrys væri ónýtur og að nafn hans yrði hér eftir að eilífu tengt þessu atviki. Aðrir láta eins og svartur skuggi hafi fallið á HM-þátttöku Frakka.

Þvættingur! – Spyrjiði bara Joe Jordan.

1978 sendu Skotar besta landslið sitt síðustu fimmtíu ár á HM í Argentínu. Að margra mati voru þeir kandídatar í að vinna keppnina og miðað við mannskapinn var það ekkert fráleitt heldur. Allir Skotar dásama þetta lið. Ekkert myndbrot hefur verið sýnt oftar í sjónvarpi þar í landi en Archie Gemmill að skora mark mótsins á móti Brasilíu (sbr. fræga vísun í Trainspotting).

Á sama hátt og Skotar eru stoltir af þessu liði sínu og gráta titilinn sem rann þeim úr greipum, er þeim nákvæmlega sama um hvernig liðið komst á HM. Það var einmitt með svindli Joe Jordans.

Wales og Skotland börðust um farseðilinn til Suður-Afríku. Allt stefndi í að Wales hefði betur, en þá sló Jordan knöttinn með hendinni í vítateig andstæðinganna, nærsýnn dómari taldi að einn úr liði andstæðinganna hefði rétt fram krumluna og dæmdi víti. Jordan fór sjálfur á punktinn, skoraði og fagnaði með því að kyssa á sér hnúann.

Enn í dag eru allir Walesverjar fjúríös út í fólið Jordan. Skotum finnst sagan bara fyndin. Og þeir einu sem kunna frá málinu að segja utan þessarra tveggja þjóða eru fáeinir fótboltasögunördar.

Svona verður þetta líka með atvikið á miðvikudaginn. Írar munu ekki fyrirgefa þetta næstu 40 árin (þeir eru reyndar þjóð sem er sérlega dugleg í langrækni), Frakkar eru bara hressir og allir aðrir verða búnir að gleyma málinu á mettíma.