KSÍ-umræðan

KSÍ ætlar ekki að sleppa svo glatt undan stóra-súlustaðarmálinu, a.m.k. virðist yfirlýsing gærdagsins ekki mælast vel fyrir í netheimum.

Einn punktur sem oft heyrist í umræðunni fer þó í taugarnar á mér. Það er þegar farið er að ræða um að sambandið sé rekið fyrir almannafé – og að menntamálaráðuneytið eigi að nota það hreðjatak til að fá dónakallana til að hegða sér almennilega.

Tvennt er athugavert við þetta:

i) Ég efast um að KSÍ sé að fá neina peninga sem mikið munar um úr ríkissjóði. Knattspyrnusambandið hefur einmitt verið í óvenjulegri stöðu innan íþróttahreyfingarinnar, því þangað hafa streymt peningar frá alþjóðasambandinu. KSÍ hefur því verið í þeirri stöðu að geta dreift peningum til aðildarfélaganna, en í öðrum greinum er þessu öfugt farið.

ii) Ef menn eru á því að framferði stjórnenda KSÍ sé siðferðislega rangt – þá sé ég ekki hverju stærð eða umfang opinberra styrkja til sambandsins ætti að breyta? Eiga aðrar reglur að gilda um fjárhagslega sjálfstæð félagasamtök en önnur? Auðvitað ekki.