Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: I.hluti (b)

HM í fótbolta nálgast. Ég er farinn að telja niður dagana og vinna í því að sannfæra fjölskylduna um að skipuleggja sumarfríið með tilliti til keppninnar. Lykilatriði þegar kemur að HM er að velja sér lið til að styðja. Og raunar er það ekki nóg. Alvöru fótboltanördar velja sér nokkur lið – eitt „aðal“, nokkur „auka“ og svo nokkur lið sem maður vonar hálfpartinn að farnist illa.

Til að gera þetta nú vísindalega, mun ég á næstu dögum fara kerfisbundið yfir öll liðin 32 sem keppa í Suður-Afríku og taka málefnalega afstöðu til hvers og eins þeirra, uns aðeins eitt stendur eftir. Þar sem þetta ferli felur í sér augljósa skírskotun til stórmyndarinnar um Hálendinginn, m. Christopher Lambert, kýs ég að tala um „Hálendinginn 2010“. Hefst þá talning:

1. Alsír

Ég hef þá kenningu að afstaða manna til heimsknattspyrnunnar mótist af fyrstu HM-keppninni sem þeir náðu að fylgjast með. (Aumingja börnin sem sitja uppi með HM 2002, þau hljóta að vera fráhverf fótbolta í dag.) Í mínu tilviki er um að ræða sambland af HM á Spáni 1982 og HM í Mexíkó 1986.

Fótboltaáhuginn heltók mig sumarið 1982, en þó ekki almennilega fyrr en að loknu heimsmeistaramóti. Afleiðingin var sú að ég drakk í mig báðar HM-bækurnar sem komu út þetta árið. Kunni þær nánast utanbókar og gat þulið upp úrslit allra leikjanna reiprennandi. 1986 horfði ég svo á alla leikina nema einn – missti af Vestur-Þýskalandi gegn Marokkó og er ennþá dálítið aumur yfir því.

Nauðsynlegt er að gera grein fyrir þessum bakgrunni áður en kemur að því að leggja mat á þátttökulöndin. Ég mun hafa ríka tilhneigingu til að taka afstöðu til einstakra liða á grunni mótanna 1982 og 1986. Þráhyggjumerki? Njah, ég kalla það frekar sterka sögulega vitund.

En altso, Alsír… Allt heiðvirt fólk sem fylgdist með HM á Spáni grét með Alsírbúum sem féllu úr keppni vegna tevtónska samsærisins, þegar Austurríkismenn og Vestur-Þjóðverjar sömdu um úrslitin í viðureign sinni. Einhver blautasti draumur fótboltaáhugamanna hlýtur að vera sá að Alsíringum takist einhvern tíma að skilja germönsku þjóðirnar tvær eftir í riðlakeppninni. Það gerist þó varla í bráð.

Niðurstaða: Alsír verður ekki uppáhaldslið, en mætti alveg komast í sextán liða úrslit.

2. Argentína

Úúú… þessi er erfið. Ég hef oft verið sökker fyrir Argentínu og Maradona var besti fótboltamaður sögunnar og að sumu leyti krúttlegasti þjálfarinn. Mannskapurinn er frábær en feigðarmerkin leyna sér ekki. Líkurnar á að þetta endi allt í tárum eru yfirgnæfandi.

Til að brynja mig vonbrigðum ætla ég að stilla mig um að halda með Argentínu að þessu sinni, en vona samt að árangurinn verði skammlaus og helst betri en það.

Niðurstaða: Argentína verður ekki uppáhaldslið, en vil sjá liðið í fjórðungs- eða undanúrslitum.

3. Ástralía

Ástralía heimsfótboltans er Stjarnan í Garðabæ – stundum með þokkalegt lið, en óskaplega óspennandi eitthvað og laust við alla sögu. Gott ef ég sleppti ekki velflestum Ástralaleikjunum á síðasta HM, svo óspennandi fannst mér þeir.

Niðurstaða: Ástralía verður ekki uppáhaldslið, mega helst falla úr leik strax í riðlakeppninni.

4. Bandaríkin

Aumingja Bandaríkin. Það er sama hvaða árangri þau ná, aldrei eru þau tekin alvarlega á fótboltasviðinu. Þegar bandaríska landsliðið er ofarlega á FIFA-heimslistanum, er það talið til marks um að listinn sé gallaður. Þegar BNA komst í úrlit álfukeppninnar, var það talið enn ein sönnun þess hversu léttvægt mótið væri – o.s.frv.

BNA hafa staðið sig prýðilega á HM upp á síðkastið, en njóta aldrei sannmælis. Yfirleitt er þetta skemmtilega spilandi lið sem á að komast í 16-liða úrslitin og í fjórðungsúrslitin á góðum degi. En einhvern veginn finnst restinni af heiminum það bara ágætt að Bandaríkjamenn séu ekkert alltof góðir í fótbolta – nógu drýldnir eru þeir nú samt.

Niðurstaða: Bandaríkin verða ekki uppáhaldslið, mega mín vegna detta út við fyrstu hindrun.

5. Brasilía

Næsti maður sem talar um samba-bolta Brasilíumanna í mín eyru, verður kýldur. Heimsmeistaralið Brasilíu 1994 og 2002 voru foxleiðinleg. Oftar en ekki leikur Brasilía evrópskari bolta en nokkurt Evrópulið og gerir lítið eða ekkert til að standa undir öllu hæpinu.

Að halda með Brasilíu er eins og að halda með skattinum eða mafíunni. Brasilíumenn eru langfjölmennasta alvörufótboltaþjóðin með 200 milljón íbúa – álíka mikið og Þýskaland, Frakkland og Spánn til samans. Auðvitað teflir svona ferlíki alltaf fram topplandsliði.

Niðurstaða: Brasilía verður ekki uppáhaldslið, Brassar mega falla úr keppni um leið og þeir eru búnir að slá út Englendinga.

…þetta var fyrsti skammtur. Bíð spenntur eftir að fótboltanördarnir fari að þenja sig í athugasemdakerfinu.