Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: III.hluti (b)

Nú er komið að kanónum á HM, þremur liðum sem stefna væntanlega á heimsmeistaratitilinn sjálfan. Leynist uppáhaldslið í þessum potti? Hvar er Valli?

12. Frakkland

Ég hélt með Frökkum á EM 1996, aftur á HM tveimur árum síðar, líka á EM 2000 og loks í leiðindakeppninni í Japan og Suður-Kóreu 2002. Hin ömurlega spilamennska Frakkanna á síðasttalda mótinu var slík svik að það verður aldrei fyrirgefið. Til að bæta gráu ofan á svart eru Frakkarnir með rugludall sem trúir á stjörnuspeki sem þjálfara, sem þýðir að unnendur vísinda hljóta að óska þeim ófarnaðar.

Niðurstaða: Frakkland verður ekki uppáhaldslið, má detta út fyrr en síðar

13.Holland

Afstaða mín til Hollendinga mótast nokkuð af því að þeirra stærsta stund var EM sigurinn 1988. Þá hélt ég hins vegar með sovéska liðinu og kunni Hollendingum litlar þakkir fyrir að sigra Dassajeff og félaga í úrslitaleiknum. Þrátt fyrir þessa forsögu verður ekki fram hjá því litið að Hollendingar leika yfirleitt einna skemmtilegasta boltann af stóru þjóðunum. Á móti liðum eins og Frökkum, Þjóðverjum og Brasilíu er ekki spurning hvar hjartað myndi slá.

Niðurstaða: Holland verður ekki uppáhaldslið, en ég myndi una þeim betur en flestum öðrum að fara alla leið

14. Hondúras

Menn dönsuðu af gleði á götum úti í Hondúras þegar liðið komst á HM í fyrsta sinn frá 1982. Ætli sá eini sem bölvaði úrslitunum hafi ekki verið brottrekni forsetinn? Fátt hjálpar herforingjastjórnum eins vel til að halda völdum og velgengni á fótboltavellinum.

Hin augljósa sögulega vísun hér er vitaskuld fótboltastríðið milli Hondúras og El Salvador sem braust út eftir leik þeirra í forkeppni HM 1970. En ég sem friðarsinni get auðvitað ekki lofsungið slíkt framferði. Hondúras á samt allt gott skilið sem smáríki með gríðarlega fótboltahefð (ætli það mæti ekki fleiri á landsleiki Hondúras sem spilaðir eru í Bandaríkjunum en á leiki bandaríska landsliðsins?)

Niðurstaða: Hondúras verður ekki uppáhaldslið, en ég myndi fagna því ef þeim tækist að stela stigi af einhverri stórþjóðinni

15. Ítalía

Hmm… getur nokkur heiðvirður vinstrimaður óskað þess að sjá Ítali verja heimsmeistaratitilinn og Berlusconi brosa út að eyrum í heiðursstúkunni? Hélt ekki. Ítalir eru auðvitað frábær knattspyrnuþjóð, en manni finnst samt eitthvað rangt við að þeir geti státað af fjórum titlum. Það er líka alltaf eitthvað fúlt við lið þar sem aðalgaurinn er markvörðurinn (segi ég sem hélt með Sovétmönnum útaf Dassajeff.)

Niðurstaða: Ítalía verður ekki uppáhaldslið, mætti helst falla út áður en í undanúrslitin er komið (því þá væri þeim nefnilega trúandi til að fara alla leið)

16. Japan

Slöppustu gestgjafar sögunnar (þangað til Suður-Afríka slær það met). Japan er álíka óspennandi og Ástralía. Það er krúttlegt þegar fátæk þriðja heims þjóð kemur á óvart á HM og nær að skjóta vondu, ríku Evrópubúunum skelk í bringu – en hver á að gleðjast yfir því þegar eitt ríkasta samfélag heims mætir sem underdog á móti skítblönku Austur-Evrópulandi?

Svo er það svo æpandi augljóst á leikjum með Japan, að áhorfendurnir eru túristar sem kunna ekkert að haga sér á fótboltaleikjum. (Eru þetta staðalmyndir og sleggjudómar? You bet!)

Niðurstaða: Japan verður ekki uppáhaldslið, tilvalið fallbyssufóður

17. Kamerún

Þeir eru til sem halda því fram að Péle hafi drepið afríska knattspyrnu með jinxinu 1990, þess efnis að 1998 yrði lið frá Afríku heimsmeistari. Aðrir benda á að Péle hafi alltaf talað út um rassgatið á sér og enginn hlusti á hann.

Hvað sem því líður, hefur Kamerún aldrei tekist að standa undir árangrinum 1990. Þeir eru þó mögulega öflugasta knattspyrnuþjóð álfunnar – ásamt Ghana. Í ljósi þessa – og að keppnin fer nú fram í Afríku, þá er þetta stóri sénsinn fyrir Kamerún. Eitthvað segir mér þó að þetta endi allt í tárum.

Niðurstaða: Kamerún verður ekki uppáhaldslið, eiginlega stendur mér alveg á sama um liðið

Og enn er mælendaskrá opin…