Fyrir margt löngu rifjaði ég upp gamla sögu úr Alþýðubandalaginu frá landsfundi þar sem einn armurinn í flokknum var búinn að setja saman lyfseðil með leiðbeiningum um hverja skyldi kjósa og hverjum að sleppa í einhverju miðstjórnarkjörinu. Ekki vildi betur til en svo að sá sem tók að sér að fjölfalda miðann – sem fara skyldi með eins og mannsmorð – gleymdi frumritinu í ljósritunarvélinni og allt varð vitlaust.
(Auðvitað klúðraði ég svo öllum smáatriðunum í sögunni – hver var að verki, hver fann miðann o.s.frv…)
Þessi saga rifjast óneitanlega upp við lestur Fréttablaðsins í dag af „stundatöflu“ stjórnarandstöðunnar – sem er búin að raða niður á sig andsvörum við ófluttum ræðum. Vissulega er þetta til marks um óvenjumikla hugkvæmni, en að stundataflan hafi farið á flakk og endað loks í höndunum á blaðamanni Fréttablaðsins er megaklúður.
Var Margrét Tryggvadóttir nokkuð sett á ljósritunarvélina?