Um gerð tæknibyltinga

Um daginn var ég beðinn um að halda erindi á veitustjórafundi Samorku, sem haldinn var síðdegis. Tilefnið var 100 ára afmæli Vatnsveitu Reykjavíkur og óskað var eftir umfjöllun um stofnun hennar og annarra íslenskra vatnsveitna. Þar sem ég átti fyrirlestur um efnið sló ég til og ætlaði bara að krukka lítilsháttar í honum.

Þegar á hólminn var komið, fannst mér ekki ganga að endurvinna gamla efnið (það er einhvern veginn alltaf þannig) og síðustu nætur varð alveg nýtt erindi til.

Ég lagði upp með að takast á við hina hefðbundnu söguskoðun, sem er á þá leið að Reykvíkingar hafi verið seinir til að fá vatnsveitu. Samkvæmt þessari túlkun voru íbúar höfuðstaðarins aðhaldssamir og varfærnir, en framsýnir og vísindalega þenkjandi menn (læknar og verkfræðingar) hafi þó náð að tala um fyrir þeim. Þannig hafi stærsti þröskuldurinn í vegi framkvæmdarinnar verið hugarfarslegur.

Þetta er í raun hin klassíska söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar, sem lifir góðu lífi innan tæknisögunnar – óáreitt – meðan sagnfræðingar hafa hjólað í hana á öllum öðrum sviðum sagnfræðinnar. (Þetta skýrist m.a. af því að það eru nánast engir sagnfræðingar í tæknisögu hér á landi.) Það sem styrkir þessa söguskoðun sérstaklega í sessi er sú staðreynd/tilviljun að tilkoma magra stórra tæknikerfa hér á landi féll saman við stjórnmálalegar breytingar heimastjórnarinnar. Því er ekki skrítið þótt margir freistist til að grípa til „anda aldamótamótakynslóðarinnar“ sem orsakaskýringar.

Eftir að hafa setið og gónt á tóman tölvuskjáinn í marga klukkutíma, ákvað ég að byrja á að lista upp þær forsendur sem mér sýndust að þyrftu að vera fyrir hendi til að yfirfærsla tæknikerfis frá fjölmennu miðlægu samfélagi til fámenns jaðarsamfélags gætu gengið. Fljótlega var ég kominn með fimm atriði sem mér sýnist geta gengið upp sem heildstæð kenning fyrir öll helstu tæknikerfi nítjándu aldar og a.m.k. fyrri hluta þeirrar tuttugustu. – Ég reikna með að hundrað manns hafi sett fram keimlíka lista, en þetta er a.m.k. minn. (Hér væri sem sagt komin tesa í doktorsrannsókn ef ég væri maður í slíkt ævintýri.)

En atriðin mín fimm eru í stuttu máli á þessa leið:

I. Stóra fyrirmyndin

Það er algengur en skiljanlegur misskilningur að tæknikerfi fæðist smá og vaxi síðan upp í að verða stór. Hið rétt er að þau fara í þveröfuga átt: fæðast stór og smækka síðan með aldrinum. Öllum tæknikerfum er lífsnauðsyn að hafa stóru fyrirmyndina sem vekur umtal og aðdáun um víða veröld (Perlustrætisstöð Edisons; neðanjarðarjárnbrautir Lundúna, heimssýningar í París og Chicago).

II. Leikföng ríkra karla

Fljótlega eftir að einstök tæknikerfi stórborganna eru orðin þjóðkunn, verða þau að táknmyndum fágunar, heimsborgaraháttar, auðlegðar og tísku. Þá munu auðmenn utan borganna vilja frá brot af glamúrnum og láta útbúa míneatúr útgáfur fyrir sjálfa sig. Kosturinn við leikföng og stöðutákn er að þau þurfa ekki að vera hagkvæm eða arðbær en skilja eftir færni og þekkingu.

III. Tæknikerfið lagað að minni samfélögum

Í upphafi eru tæknikerfin bara hugsuð fyrir verðmætustu kúnnana á dýrustu og þéttbýlustu stöðunum. Þegar sá markaður telst mettaður, þarf að þróa tæknikerfið upp á nýtt til að nýta megi það í afskekktari, efnaminni, strjálbýlli og fámennari byggðum.

IV. Birgjar og verktakar fara á kreik

Alþjóðleg verktakafyrirtæki og framleiðendur efnis og tækjabúnaðar skipta miklu máli fyrir útbreiðslu tæknikerfa. Á tímum alþjóðavæðingarinnar hinnar fyrri (1871-1914) var mikilvægið extra-mikið eins og ótal dæmi sanna.

V. Staðbundin tækniþekking og stoðkerfi verða til

Einföld hausatalning í stétt íslenskra verkfræðinga á árunum í kringum 1900 segir sína sögu um möguleika tækniupptöku á ýmsum sviðum. Iðnnámið komst ekki í fastar skorður fyrr en með Iðnskólanum í Rvík 1904. Verslanir á borð við Helga Magnússon & co. og Jón Þorláksson & Norðmann skiptu sköpum.

Niðurstaða mín var því sú að varðandi vatnsveiturnar – þá hafi þær komið til sögunnar á nákvæmlega þeim tíma sem ætla mátti út frá þessum fimm atriðum. Og það sem meira er: við eigum að reyna að skýra innleiðingu allra helstu tæknikerfa út frá þessum gátlista.

Það er nokkuð önnur nálgun en hefðbundna íslenska tæknisöguritunin kennir okkur. Hún er nokkurn veginn á þessa leið: Einu sinni voru allir svangir/skítugir/kaldir/þyrstir/hægfara (bætist við eftir þörfum). Þá kom hr. X og flutti þingsályktunartillögu…