Jónas Kristjánsson svarar færslu minni um kirkjur og málefni byggingarfulltrúa í Egyptalandi. Svar Jónasar er á þessa leið:
Stefán smíði kirkjuna
Stefán Pálsson herstöðvaandstæðingur fer rangt með, þegar hann segir kristna Kopta fá að byggja kirkjur í Egyptalandi. Leitaðu Stefán á Google að „egypt koptic church building permit“. Reyndu svo að reisa þar kirkju. Koptar eiga þvert á móti afar erfitt með að fá slík leyfi. Ríkið skammtar örfá leyfi til kirkjubygginga, seint og illa. Þau nægja ekki til að leysa af hólmi kirkjur, sem hrynja eða eru rifnar til að rýma fyrir nýjum húsum. Ennfremur brennir fólk og rífur nýbyggðar kirkjur. Samt er Kopta-kristni frumtrú í landinu. Útilokað er fyrir aðra kristna söfnuði að fá að byggja kirkjur þar í landi.
Svo mörg voru þau orð.
Að sjálfsögðu hlýddi ég Jónasi og sló inn umbeðnum leitarorðum á Google. Þá kom þessi niðurstaða í ljós.
Það er fróðlegt að renna yfir þessar heimildir sem Jónas telur taka af allan vafa í málinu. Drjúgur hluti er (skilanlega) fréttaveitur koptískra kirkjudeilda í Bandaríkjunum. Safaríkustu frásagnirnar eru þó af síðum sem heita: Christianpost.com og (efsta heimildin) Rightsidenews.com – sem hefur undirfyrirsögnina „The Right News for America“. Endilega kynnið ykkur þann… tja, athyglisverða vef.
Mín heimild um stöðu trúfrelsismála í Egyptalandi er hins vegar hin árlega mannréttindaskýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins (2008 útgáfan), en þar er hvert land tekið fyrir og meðal annars fjallað ítarlega um réttindi trúarhópa. Sjá hér. Ég stend því við hvert orð í síðustu færslu.
Gaman væri að vita hvað blaðamennskukennarinn Jónas segði á námskeiðum sínum um val á heimildum. Hvorum er hollara að trúa: embættismönnum bandaríska utanríkisráðuneytisins eða blaðamönnum á hægrinöttaravefriti?