Örnólfur

Í kvöld hringdi ég í Örnólf Thorlacius. Hann hringdi nefnilega hingað heim fyrir fáeinum dögum, þegar ég var ekki heima, en var svo kurteis í símann að Steinunn krafðist þess að ég hringdi í gamla manninn.

Í ljós kom að Örnólfur er skráður fyrir gemsa, en hann er kominn inn á elliheimilið Minni-Grund.

Örnólfur var kátur að fá símtalið, þrátt fyrir að vera augljóslega í miðjum klíðum með kvöldmatinn. Hann hafði heyrt útvarpsviðtal við mig um tæknisögu (sem ég var löngu búinn að gleyma og átti sannast sagna ekki von á að myndi rata í útvarp).

Í ljós kom að karlinn hafði verið hæstánægður með viðtalið, enda rímaði það við margt af því sem hann hafði sjálfur fjallað um á sviðinu. Svo sagði hann tvær langar sögur tengdar sögu flugsins – sem rímuðu reyndar furðuvel við það sem ég hef sjálfur skrifað um sama efni. Reyndar varð ég alveg hissa á því hvað karlinn var vel að sér um helstu álitamál tæknisögunnar.

Undir lok símtalsins barst talið loks að kafbátum – sérsöku áhugamáli Örnólfs sem gaf út bók um efnið fyrir síðustu jól. Við slitum samtalinu með loforði um að ég kæmi í heimsók og fengi eintak hjá honum að gjöf. Það mun ég svo sannarlega gera.

Mér finnst magnað að karlinn sé svo sprækur – kominn inn á elliheimili – að hafa getað gefið út bók um síðustu jól. Pant vera svona hress á hans aldri!

Örnólfur Thorlacius má eiga að hann lagði margt til vísindafræðslu Íslendinga og hefur verið óbilandi fræðari alla sína tíð. Þar skiptir litlu máli þótt við yngri sagnfræðingarnir höfum e-ð eilítið fitjað upp á trýnið útaf sumum af hugðarefnum hans í seinni tíð. Líklega hefur það sagt meira um okkur en karlinn.

En ég á sem sagt í vændum bók um kafbátasögu…