Forval VGR fór fram um helgina. Í fjölmiðlum í dag hefur verið sagt frá kæru eins frambjóðandans, Þorleifs Gunnlaugssonar. Kæran gengur í stuttu máli út á að póstkosningin í tengslum við forvalið hafi ekki farið rétt fram og að því beri að ógilda öll bréfleg atkvæði í kjörinu (84 af 1070).
Kjörstjórnin tók þessa kæru til athugunar og komst að þeirri niðurstöðu að engar reglur hafi verið brotnar. Reglurnar um póstkosningu eru þær sömu og verið hafa í tveimur síðustu forvölum og framkvæmdin sú sama. Póstkosningin fór því fram með sama hætti nú og fyrir þingkosningarnar 2007 og 2009.
Reglur forvalsins voru samþykktar á félagsfundi VGR. Á sama fundi var skipuð kjörstjórn til að sjá um forvalið eftir settum reglum. Sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn af póstkosningum og tel best að atkvæði séu helst undantekningarlaust greidd á kjörstað. Flokkurinn hefur hins vegar verið á öðru máli og viljað liðka fyrir því að sem flestir geti tekið þátt.
Fáeinum dögum fyrir kjördag lenti ég á netspjalli við kunningja minn, harðan stuðningsmann Þorleifs, á Fésbók. Við spjölluðum um eitt og annað tengt yfirvofandi forvali, þar á meðal póstkosningamál – hvað mætti og hvað mætti ekki. Ég lýsti skoðunum mínum í því efni, túlkaði reglurnar mun þrengra en bókstafurinn gaf tilefni til og lýsti þeirri skoðun minni að hlutir væru bannaðir sem ekki voru bannaðir.
Þetta voru mistök og dómgreindarleysi af minni hálfu. Þótt ég hafi sjálfur ekki talið mig vera að gefa út einhverja kjörstjórnarúrskurði á Fésbók um miðja nótt heldur að diskútera málin við kunningja, átti ég að vita betur. Hafi þessar hugleiðingar mínar orðið þess valdandi að frambjóðandi í forvalinu hagaði kosningabaráttu sinni öðru vísi en ella, hlýt ég að biðjast innilega afsökunar á því. Það var svo sannarlega ekki ætlunin að senda neinum villandi skilaboð. Reglurnar voru eftir sem áður skýrt skráðar og breyttust ekki við ábyrgðarlaust raus í mér.
Enn og aftur biðst ég forláts á þeim vandræðum sem ég kann mögulega að hafa valdið.