Þrenning sönn og ein

Rétt í þessu skrifaði ég athugasemd á bloggsíðu Símons Birgissonar. Hún varðaði Álftanes og sameiningarmál þess.

Ég er sammála síðueiganda. Við eigum að koma fram við Álftnesinga af virðingu – og umræða um mögulega sameiningu á ekki að vera bara á þeim forsendum að Álftnesingar séu á hausnum.

Nálgumst málið ekki neikvætt heldur jákvætt. Hvers vegna ekki að steypa saman Reykjavík, Álftanesi og Seltjarnarnesi – sveitarfélögunum með „stofurnar þrjár“.

Það má hæglega færa fyrir því rök að merkustu og sögufrægustu hús Íslands séu: Nesstofa, Bessastaðastofa og Viðeyjarstofa (Stjórnarráðið kemur svo í fjórða sæti). Við værum með þessar þrjár öndvegisbyggingar í sögu Íslands undir einni stjórn, í einu og sama sveitarfélaginu.

Ég hugsa hér sem sagnfræðingur. Þegar ég les sögu Reykjavíkur, eins og hún hefur verið skrifuð miðað við núgildandi sveitarfélagamörk, er eitthvað verulega rangt. Sögulega samfellan er óskiljanleg. Reykjavík nær því ekki að vera sú valdamiðstöð sem ætla mætti í gegnum Íslandssöguna.

En ef við tökum Nes og Bessastaði með í reikninginn breytist málið. Þá sjáum við þessa sögulegu samfellu. Saga Reykjavíkur verður heildstæð og rökrétt.

Sameinumst um stofurnar þrjár. Þetta yrði helv. flott sveitarfélag.