Bulger

Eina ferðina enn ratar morðið á James Bulger árið 1993 inn í fréttir í Bretlandi (og þar með hér heima). Ég sló leitarorðinu „Bulger“ inn á leitarvél Múrsins og komst að því að á sínum tíma skrifaði ég þrjá pistla þar sem vikið var að morðmálinu – eða öllu heldur fjölmiðlafárinu því tengdu.

Allir fjölluðu þessir pistlar um Tony Blair, sem er líklega sá einstaklingur sem Múrinn skammaði mest og oftast.

Tengingin var alls ekki langsótt. Bulger-málið var sá stökkpallur sem Tony Blair notaði til að komast í sviðsljós stjórnmálanna. Sú saga var ekki falleg.

Það var ekki hvað síst vefritið Spiked sem var duglegt að minna á þátt Blairs í málinu og pistlarnir mínir 2001-3 voru innblásnir af skrifum þess. Brendan O´Neill heggur enn í sama knérunn og skrifar stórfróðlega upprifjun á því hvernig Blair varð leiðtogaefni Verkamannaflokksins og byggði hugmyndafræði sína að talsverðu leyti á því að sýna hörku í þessu tiltekna máli. Endilega lesið þennan pistil.