„Hann er algjör proffi“ – sögðum við krakkarnir í Vesturbænum um menn sem þóttu sérdeilis snjallir. Í okkar huga vísaði það að vera prófessor til andlegs atgervis, frekar en að merkingin væri endilega sú að viðkomandi væri launaður starfsmaður háskólastofnunar og embættismaður í ofanálag. Þannig var enginn háskóli í Smjattpattabyggð, þótt Baunabelgur prófessor væri þar mestur vísdómsmaður.
Nú hefur komið í ljós að málskilningur nokkurra þingmanna úr stjórnarandstöðunni er sá sami og okkar krakkanna á Hjarðarhaganum. Eins og þetta lagafrumvarp ber með sér.
Þau Vigdís Hauksdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari hafa nú flutt frumvarp um að lagastofnun Alþingis verði komið á laggirnar.
Þarna eiga sem sagt að vinna fimm lögfræðingar – þar af a.m.k. tveir prófessorar. Þetta bendir til verulega sérkennilegs skilnings á hugtakinu prófessor, sem virðist vera notað hér í merkingunni súper-doktor eða e-ð álíka. Nema þá að hugsunin sé sú að einhverjir prófessorarnir við Háskólann eigi að dútla við þetta á kvöldin og um helgar – sem væri reyndar í ósamræmi við mánaðargamla gagnrýni Ríkisendurskoðunar á að prófessorar séu að harka í aukavinnu út um allan bæ.
Enn önnur skýring er að þessi klaufalega villa þingmannanna sé sett þarna inn af ásettu ráði. Frumvarpið gengur jú út á að stofna batterí til að stoppa lagafrumvörp með augljósum klaufavillum – og hvernig rökstyðja menn þörfina á slíku betur en jú einmitt með því að leggja fram frumvarp með augljósri klaufavillu? Snjallt!