Leikur ársins (b)

Á morgun fer fram leikur ársins í enska boltanum. Nei – ég er ekki að tala um fúlu viðureignina milli Man. United og Chelsea, heldur toppslag Stevenage og Luton í BSP-deildinni.

Þetta fyrsta ár Luton í utandeildinni hefur verið skrítið. Við og Oxford höfum langflesta stuðningsmennina, stærstu leikmannahópana og mest umleikis af öllum liðunum í deildinni. Hins vegar var búið að vara okkur við að lið sem kæmu úr deildarkeppninni fengju oft kúltúrsjokk og ættu erfitt uppdráttar gegn liðum sem berðust af aukinni hörku gegn „stóru liðunum“.

Sú varð raunin. Mótið fór illa af stað. Alltof mörg stig töpuðust gegn veikum andstæðingum og sárasjaldan tókst okkur að vinna sannfærandi sigra. Um tíma leit út fyrir að liðið ætlaði ekki einu sinni að komast í umspilið (sæti 2-5). Goðsögnin, Mick Harford, var látinn hætta sem knattspyrnustjóri og reynsluboltinn Richard Money (áður hjá Walsall og ungmennaliði Newcastle) tók við.

Eftir rólega byrjun tókst hr. Money að snúa genginu við. Upp á síðkastið hefur Luton unnið hvern leikinn á fætur öðrum – og suma þeirra með afar sannfærandi hætti. Í þremur síðustu leikjum höfum við t.d. skorað sex, átta og fjögur mörk. Af átta síðustu deildarleikjum hafa sjö unnist og einum lokið með jafntefli.

Um mitt mót virtist ljóst að Oxford væri óstöðvandi og yrði búið að tryggja sér titilinn í mars. Eina liðið sem náði að hanga í háskólaborgurunum var Stevenage, sem hefur átt fantagott tímabil.

Síðustu vikurnar hefur hins vegar botninn dottið úr spilamennskunni hjá Oxford. Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum og tapaði síðast í dag gegn Hayes & Yeading, sem Luton vann 8:0 á dögunum. Oxford er nú með 73 stig í þriðja sætinu þegar sex umferðir eru eftir.

Luton er sem stendur í öðru sæti með 76 stig og sex leiki eftir. Stevenage trónir hins vegar á toppnum með fimm stigum meira, einn leik til góða og mun betra markahlutfall. Stevenage hef nú unnið átta síðustu leiki og er á góðri siglingu.

Vinni Stevenage eða geri jafntefli á morgun er liðið með pálmann í höndunum. Þá getur varla neitt komið í veg fyrir að Stevenage taki titilinn og annað lausa sætið í deildarkeppninni og Luton, Oxford, Rushden & Diamonds og York mætist í umspili. Takist okkur hins vegar að vinna á morgun mætti Stevenage ekki misstíga sig í mörgum leikjum og fyrstu taugaveiklunarmerkin eru raunar þegar farin að koma fram.

Líklega verðum við Luton-menn þó að kyngja því að hafa byrjað mótið of seint. En góður lokasprettur er fínn upptaktur fyrir umspil. Verst hvað það verður andskoti taugatrekkjandi…

* * *

Uppfært: Unnum 0:1!!! Stevenage hefur þó tveggja stiga forystu og á leik til góða – en nú fara taugarnar að segja til sín…