Það er erfitt að drepa mýtur þegar þær eru á annað borð komnar á kreik. Hálf heimsbyggðin er t.d. með það á hreinu að Neró hafi spilað á fiðlu meðan Rómarborg brann – sama hvað pirraðir sagnfræðingar reyna að malda í móinn.
Önnur lífseig mýta er Toblerone-mýtan um Monu Sahlin. Jóhann Hauksson endurtekur hana síðast í morgun: „Svona rétt til samanburðar má geta þess að Mona Sahlin, núverandi formaður sænska jafnaðarmannaflokksins og hugsanlega næsti forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði af sér sem aðstoðarforsætisráðherra um miðjan tíunda áratuinn vegna þess að hún hafði keypt Toblerone og bleyjur fyrir opinbert krítarkort.
Fyrir vikið er hún greinilega talin trúverðug heilindamanneskja enda varð hún síðar formaður flokksins.“
Höfum eitt á hreinu: Mona Sahlin hrökklaðist ekki úr ráðherrastól vegna þess að hún keypti bleyjur og Toblerone fyrir börnin sín. Það sem felldi Sahlin var ekki smávægileg ónákvæmni í bókhaldi með einhverja þúsundkalla – heldur það sama og fellir langflesta stjórnmálamenn: hún byrjaði að ljúga.
Það að hver maður éti upp eftir öðrum að allt hafi þetta snúist um bleyjur og súkkulaði er afleiðing af frábærum spuna. Sahlin sagðist sjálf í einhverju viðtalinu ekki hafa gert neitt annað af sér en að „kaupa bleyjupakka og Toblerone fyrir börnin“. Þessi setning varð fleyg – og eftir smátíma fóru menn að endurskrifa söguna á þennan veg. (Ætli það séu veitt Óskarsverðlaun í PR-mennsku?)
Það rétta er að Mona Sahlin hefði aldrei þurft að segja af sér vegna súkkulaðistykkis. Hins vegar komust fjölmiðlar á snoðir um að hún hefði brotið reglur um meðferð greiðslukorts sem hún hafði afnot af vegna vinnu sinnar. Hún notaði það í einkaerindum en gerði svo upp um hver mánaðarmót – eins og um fyrirframgreidd laun væri að ræða. Þetta var brot, en aldrei þess eðlis að það gæti rústað stjórnmálaferli.
En þá brást Mona Sahlin við á þann hátt sem svo mörgum stjórnmálamönnum er tamt: í stað þess að stíga fram, upplýsa málið og kæfa það þannig í fæðingu, fór hún undan í flæmingi, hagræddi sannleikanum og var með skæting. Fyrir vikið fóru fjölmiðlamenn að rýna betur í hennar mál og þá komu ýmsar aðrar smásyndir í ljós: Sahlin hafði t.d. ekki haft fyrir því að borga afnotagjöldin og varð uppvís af því að hafa barnfóstru í svartri vinnu (hvort tveggja afar óheppilegt fyrir stjórnmálamann í Svíþjóð).
Þrátt fyrir þetta má ætla að Mona Sahlin hefði átt að geta staðið málið af sér – ef hún hefði ekki tekið þá fáránlegu ákvörðun að stinga af frá þessari óþægilegu umræðu og fara með fjölskylduna í frí til Máritus og láta ekki ná í sig. Þar með gaf hún gagnrýnendum sínum frítt spil (ekki bætti úr skák að flokksfélagar hennar voru ekkert sérstaklega í því að verja hana) og þegar hún kom heim aftur var litla kreditkortamálið orðið að allsherjar skandal. Þegar við þetta bættust fréttir af því að Sahlin hafði tekið með sér lífvörð í ferðalagið á kostnað skattgreiðenda (á þessum tíma höfðu sænskir stjórnmálamenn sjaldnast lífverði) var afsögn hennar innsigluð.
Með þessa forsögu í huga er það því hvimleitt að heyra aftur og aftur sömu gömlu þuluna um að engillinn Mona Sahlin hafi stokkið til og sagt af sér um leið og hún var nöppuð fyrir að kaupa Toblerone-pakka.
* * *
Uppfært kl. 16:00: Jóhann Hauksson hefur rekið augun í færsluna mína. Hann segir mig vera að skattyrðast við sig og bendir réttilega á að athugasemdin um Monu Sahlin hafi verið algjört aukaatriði í grein sinni. Þá vísar hann í eldri grein eftir sjálfan sig til að sýna fram á að hann þekki vel sögu Toblerone-málsins og hvetur mig til að lesa hana vandlega.
Ekki sé ég reyndar hvað það er í greininni sem ég á sérstaklega að tileinka mér. Kjarni málsins er að Mona Sahlin hrökklaðist frá – ekki vegna eðlis afbrots hennar, heldur hins að hún brást við ásökununum með því að segja ósatt og hrökklast undan spurningum fjölmiðla (auk þess sem margt bendir til þess að öfundsjúkir flokksbræður hafi heldur grafið undan henni).
Mér sýnist helst að Jóhann haldi að ég hafi verið að gera einhvern sérstakan ágreining við grein hans um Björgvin G. Það er hins vegar misskilningur. Ónákvæmnin í endursögnum manna af Sahlin-málinu hefur einfaldlega pirrað mig í mörg ár og rifjaðist bara upp þegar ég renndi yfir pistil Jóhanns.