Við sögðum ykkur þetta!

Fundur Samfylkingarinnar í dag var stórmerkilegur. Umfjöllun fjölmiðla hefur reyndar að mestu snúist um léttvæg aukaatriði á borð við það hvort fyrrum formaður flokksins hafi grátið eða beðist nógu fallega afsökunar. Stóru fréttirnar eru hins vegar afgreiðsla forsætisráðherra á Blairismanum, sem hafi villt flokkinn af leið.

Ef einhver hefði sagt mér þetta fyrir áratug, hefði ég stimplað viðkomandi sem fáráðling. Tilhugsunin um formaður Samfylkingarinnar talaði svona um Tony Blair og hugmyndafræði þá sem við hann er kennd var einfaldlega óhugsandi.

Gleymum því ekki að Samfylkingin varð að miklu leyti til sem flokkur utan um Blairismann. Dálæti sumra Samfylkingarmanna á breska forsætisráðherranum var takmarkalítið og tók stundum á sig fáránlegar myndir – eins og þegar Gróska, vefrit ungra krata, sló upp fréttum af því þegar yngsti sonur Blairs kom í heiminn og var skírður.

Á þessum árum var ég í ritstjórn vefritsins Múrsins. Við dældum út greinum um pólitík – og ekki hvað síst um hugmyndafræði. Enginn maður var skammaður oftar á síðum vefritsins en Tony Blair. Og Samfylkingin fékk reglulega gusur fyrir Blairismann.

Í júní 2001 skrifaði ég pistilinn „Að velja sér leiðarljós“. Þar sagði m.a.:

Eins og val frjálshyggjumanna á Margréti Thatcher sem leiðtoga lífs síns var rökrétt, er furðulegt að íslenskir sósíal-demókratar skuli sjá Bretland í hillingum. Í félagslegum efnum stendur Bretland flestum ríkjum Vestur-Evrópu langt að baki. Menntakerfi landsins er fjársvelt og veikburða, ef frá eru taldir nokkrir afbragðs háskólar. Svo dæmi sé tekið telst fimmti hver fullorðinn Breti ekki fulllæs. Heilbrigðiskerfið er dapurt, biðlistar óralangir og deildir undantekningalítið undirmannaðar. Samgöngukerfið er staðnað. Kynþáttafordómar og útlendingahatur er rótgróið. Ofbeldi og glæpir eru með mesta móti samanborið við önnur ríki Evrópusambandsins. Og fátækt er mikið og vaxandi vandamál, en til marks um það má nefna að allmörg berklatilfelli hafa greinst á undanförnum árum hjá börnum í fátærahverfum.

Það er skringilegt þegar fólk í stjórnmálum finnur sig knúið til að velja sér uppáhaldsstjórnmálamenn til að „halda með“ líkt og um fótboltalið eða rokkhljómsveitir væri að ræða. Hitt er undarlegra þegar valið á fyrirmyndunum reynist vera í andstöðu við þær lífsskoðanir og hugmyndafræði sem viðkomandi einstaklingar aðhyllast. Íslenskir sósíal-demókratar, sem styðja kennisetningar kapítalismans í öllum aðalatriðum, en telja að viðunandi jöfnuði megi ná með plásturslausnum í velferðarkerfinu myndu gera betur í því að horfa til jafnaðarmannastjórna Jospins í Frakklandi og Schroeders í Þýskalandi. Því þótt margt í hugmyndafræði þeirra sé sósíalistum ógeðfelt, ætti hún að hugnast íslensku Samfylkingarfólki ágætlega. – Nema að hinir alþjóðasinnuðu og nútímalegu jafnaðarmenn kæri sig einfaldlega ekki um að kynna sér annað en hinn enskumælandi heim.

Tveimur árum síðar lenti ég í stuttri ritdeilu við Flosa Eiríksson um Blairismann. Þar skrifaði ég pistilinn „Hvers vegna er mér illa við Tony Blair?“ Þar sem spurningunni var svarað í níu atriðum. Mér sýnist þau hafa elst ágætlega.
Á sínum tíma völdu Samfylkingarmenn okkur Múrverjum öll hin verstu orð fyrir skrif okkar um Blair og Samfylkinguna. Ætli okkur sé þó ekki óhætt að líta á ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur í dag sem einhvers konar afsökunarbeiðni?