Um óhefðbundin framboð

Eins og fastir lesendur þessarar síðu vita er ég kosninganörd. Frá því að ég eignaðist fyrstu Fjölvís-kosningahandbókina mína ellefu ára gamall, fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1986, hef ég haft unun af því að liggja yfir kosningaúrslitum, gömlum og nýjum framboðslistum, skoða fylgisbreytingar milli staða og tímabila o.s.frv.

Sérstaklega er ég mikill sökker fyrir smáflokkum. Listarnir sem buðu fram í einum kosningum og hurfu svo af yfirborði jarðar hafa alltaf heillað mig. Á sínum tíma gældi ég meira að segja við að skrifa BA-ritgerðina mína um íslenska smáflokka. (Smáflokkur er hér notað bæði í merkingunni fylgislítill flokkur og skammlíft framboð.)

Grínframboðin svokölluðu eru mikilvægur partur af þessari sögu. (Reyndar er það sameiginlegt einkenni allra þeirra framboða sem fengið hafa þennan stimpil, að þau þræta sjálf fyrir að vera grínframboð.) Það auðveldar því kannski umræðuna að nota hér hugtakið óhefðbundið framboð.

Framboðsflokkurinn, O-listinn, er frægasta tilraunin af þessu tagi. Allir þeir sem eru af tilteknu aldursbili eru sannfærðir um að O-listinn hafi verið hillaríös. Sjálfur hef ég alltaf verið fullur fordóma í garð Framboðsflokksins og eiginlega ákveðið að hann hafi ekki verið sniðugur frekar en Útvarp Matthildur. Þetta skýrist einvörðungu af þvermóðsku minni og þeim rótgróna eiginleika að vera nánast sjálfkrafa ósammála útbreiddum skoðunum.

Sólskinsflokkurinn var tilraun til óhefðbundins framboðs (1979 að mig minnir) sem floppaði. Þeir lofuðu sól alla daga og völdu röð frambjóðenda með því að fara í vítaspyrnukeppni. Blöðin keyptu hins vegar ekki við gríninu og Sólskinsflokkurinn fékk enga athygli og enn færri atkvæði. Það var líka erfitt að átta sig á í hverju ádeilan fólst.

Vinstri-hægri-snú!-listi Snorra Ásmundssonar er mögulega ófyndnasta grínframboð sögunnar. Í fljótu bragði detta mér varla í hug verri samfélagsglæpir en að skipuleggja ófyndið grínframboð.

Bestheppnaða tilraunin á landsmálastiginu voru Öfgasinnaðir jafnaðarmenn í Reykjaneskjördæmi 1991. Það framboð var reyndar mun pólitískara en margar hinna tíu hreyfinganna sem buðu fram í kjördæminu í það sinnið. Einhversstaðar heima luma ég á stefnuskrá framboðsins. Hún þyrfti að komast á netið.

Á sveitarstjórnarstiginu voru Fönklistinn á Ísafirði og Biðlistinn í Fjarðabyggð velheppnuð framboð – en gátu af sér nokkur hermikrákuframboð víða um land sem voru misvond.

Óhefðbundin framboð hafa þó flestöll einn sameiginlegan galla. Þau eru yfirleitt hörundssár.

Nú liggur í eðli framboða sem öðrum þræði er sett fram í gamansömum tilgangi að þau skopast að stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum sem fyrir eru. Hins vegar má sjaldnast svara þeim í sömu mynt – það þykir ægilegur hroki og dónaskapur.

Flokkastjórnmál fela það í sér að menn hvetja kjósendur til að velja sinn flokk en vara við öðrum flokkum. Vinstri græn segja fólki að það sé óðs manns æði að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðismenn gjalda líku líkt. Þetta er daglegt brauð. Út á þetta gengur pólitík og það er eðlilegt.

Þess vegna er það kyndugt hversu viðkvæmir aðstandendur óhefðbundinna framboða eru fyrir því þegar fólk úr öðrum flokkum varar við að þau séu kosin. Óhefðbundnu framboðin krefjast þess að fá að vera með og vera tekin alvarlega eins og hver önnur stjórnmálahreyfing, en heimta á sama tíma sérmeðhöndlun af því að þau séu svo krúttleg eða sniðug.