Kyndistöðin

Í dag var Stóri Kyndistöðvardagurinn haldinn hjá okkur í Orkuveitunni. Skelli hér inn ávarpinu mínu sem ég flutti að þessu tilefni:

Kæru gestir


Velkomin á Stóra kyndistöðvardaginn hjá okkur í Orkuveitunni. Takið eftir því að við köllum þetta „stóra“ kyndistöðvardaginn – það er vegna þess að við viljum ekki útiloka möguleikann á að halda marga minni kyndistöðvardaga það sem eftir er ársins. Hver veit nema að allir föstudagar geti orðið kyndistöðvardagar?

Tildrögin að þessum degi eru þau að við Baldur Sigurðsson úr Umsýslu fasteigna, fórum að ræða þá sjokkerandi staðreynd að hjá Orkuveitunni vinni fjöldi fólks – sem hefur jafnvel starfað í þessu húsi frá því að það var tekið í notkun – sem aldrei hefur skoðað kyndistöðina hér við hliðina. Það er í okkar huga dálítið eins og að búa hálfa ævina í Hlíðunum en hafa aldrei heimsótt Kjarvalsstaði. Eða vera Kaupmannahafnarbúi, sem aldrei hefur komið í Tívolí.

Kyndistöðin – þetta glæsilega mannvirki, með þessa voldugu reykháfa, er ein af lykilbyggingum Orkuveitunnar. Þarna er glæsilegur tækjabúnaður sem stórskemmtilegt er að skoða. Stöðin gegndi mjög mikilvægu hlutverki í sögu hitaveitunnar og hefur meira að segja bjargað mannslífi – en meira um það síðar.

Á eftir munum við ganga um stöðina og skoða tækjabúnaðinn undir leiðsögn færustu snillinga sem geta svarað öllum tæknilegum spurningum – eða í það minnsta logið einhverju sem hljómar nógu sennilega. Ég mun hins vegar stikla á því allra stærsta varðandi stöðina og sögu hennar hér inni.

Kyndistöðin í Árbæ var byggð árið 1967 – og svo stækkuð verulega árið 1984. Hún hafði tvíþættan tilgang: að vera varastöð – það er öryggisbúnaður sem hægt er að grípa til þegar bilun verður í öðrum þáttum kerfisins. Þessu hlutverki gegnir hún enn í dag. Hins vegar var hún toppstöð – sem er stöð sem framleiðir orku í skamman tíma þegar álag er í hámarki, t.d. rétt yfir köldustu daga ársins.

Eftir að Nesjavallavirkjun komst í gagnið 1990, hefur kyndistöðin ekki verið notuð sem toppstöð – og eins og staðan er í dag verður að teljast frekar ólíklegt að hún eigi eftir að fá það hlutverk á ný, einkum miðað við það hvernig olíuverð hefur þróast. Hins vegar er það alltaf bara viðskiptafræðilegt reikningsdæmi hvort og þá hversu mikið það sé hagstætt að láta olíudrifnar toppstöðvar sjá um orkuframleiðslu. Það er dýrt að virkja jarðhitasvæði og þess vegna getur það verið mjög hagkvæmt að spara fjárfestingu með því að láta olíustöðvar sneiða niður orkutoppa til að geta frestað nýframkvæmdum.

Stöðin virkar í grófum dráttum þannig að inn í hana er leitt vatn sem dælt er ofan úr Mosfellssveit, frá Reykjum. Vatnið kemur 80-90 gráðu heitt inn í stöðina og er hitað upp í allt að 130 gráðum. Þaðan er því svo pumpað í Perluna á Öskjuhlíð (nema hluti sem fer í Stekkjabakkann fyrir Breiðholtið eða beint í Árbæjarhverfið). Á hverjum stað er því svo blandað við bakrennslisvatn til að ná þessu rétta hitastigi hitaveituvatnsins.

Ég sagði á áðan að kyndistöðin hefði bjargað mannslífi. Það er ekki ofmælt. Ef hennar hefði ekki notið við, hefði Jóhannes Zoëga fv. hitaveitustjóri nefnilega verið stjaksettur. Sem hefði þar með sett alveg ný viðmið þegar kemur að því að axla pólitíska ábyrgð. Tildrögin voru þessi:

Það er kunn staðreynd að í öllum orkufyrirtækjum vinna í grunninn aðeins þrjár gerðir manna: þeir sem kunna að reikna, þeir sem kunna að framkvæma & þeir sem kunna hvorugt. Vissulega væri æskilegt ef hægt væri að fá betri blöndu af þessum eiginleikum – en það er því miður ekki í boði.

Helgi Sigurðsson, sem stýrði Hitaveitu Reykjavíkur á á sjötta áratugnum, féll í fyrsta flokkinn. Hann var mjög slunginn í að reikna. Þegar stjórnendur Reykjavíkurbæjar vildu láta ráðast í hitaveituátak í byrjun sjöunda áratugarins, settist Helgi niður, fór að reikna og komst að því að þetta væri tóm vitleysa. Kostnaðurinn við að virkja ný jarðhitasvæði var mikill og olíuverð í sögulegu lágmarki og engan gat órað fyrir því að OPEC-ríkin ættu eftir að koma af stað olíukreppu eftir rúman áratug.

Stjórnendur Hitaveitunnar vildu sem sagt ekki stækka hitaveituna – og þeir voru sérfræðingarnir sem vissu út á hvað hitaveiturekstur gekk. Pólitíkusarnir vildu hins vegar láta stækka veituna – því að þeir vissu ekkert um hitaveiturekstur og voru bara að spá í ódýrum pólitískum vinsældum. Geir Hallgrímsson var ungur borgarstjóri sem var að fara í sínar fyrstu kosningar – og kjósendur, sem heldur ekkert vissu um hitaveiturekstur, heimtuðu stærri veitu. (Þessi saga er reyndar ágætis áminning fyrir okkur Orkuveitufólk, þegar við kvörtum yfir vitlausu stjórnmálamönnunum sem eru alltaf að ráðskast með fyrirtækið okkar og trufla okkur fagfólkið. Ef sérfræðingarnir hefðu fengið að ráða er viðbúið að Fossvogurinn væri ennþá kyntur með kolum.)

Stjórnmálamennirnir gáfu sig ekki – og Helgi Sigurðsson, var látinn fara. Í staðinn var Jóhannes Zoëga ráðinn. Hann var týpa 2. Kunni að framkvæma en ekki reikna. (Þetta er augljóslega hreinn rógur. Jóhannes var vel reiknifær maður, en það þjónar ekki nógu vel tilgangi þessarar frásagnar.)

Jóhannes réðst í umfangsmikla stækkun á hitaveitunni og tók inn ný hverfi. Hann fór að reikna og útkoman varð sú að miðað við að hitinn færi ekki niður fyrir mínus sex gráður marga daga í röð, ætti hitaveitan að geta komist hjá vatnsskorti… það eru engin verðlaun fyrir að giska á hvað gerðist næst.

Í byrjun desember gerði kuldakast með 5-10 stiga frosti í viku. Bærinn fraus – og Jóhannes Zoëga fékk til æviloka viðurnefnið Kuldaboli. Veturinn 1967-68 var sá kaldasti í manna minnum. Kyndistöðin var hins vegar langt komin og Jóhannes lýsti því kotroskinn yfir að ekkert vatnsleysi yrði í bænum í næsta kuldakasti. Það þótti djarflega mælt miðað við aldur og fyrri störf.

En stöðin komst í gagnið þarna í desember. Tveir 17,5 MW katlar voru settir upp. Þegar enn svakalegra kuldakast skall á eftir áramótin, með allt að 12 stiga frosti, tókst Hitaveitunni nær alveg að verjast vatnsskorti. Jóhannes hélt höfðinu og upp frá þessu hefur heita vatnið ekki þrotið í kuldum í Reykjavík.

Árið 1984 var stöðin stækkuð allrækilega og bætt við 60 MW katli, sem stendur í austurálmunni. Sú framkvæmd reyndist hagkvæm. Hún gerði borginni kleift að fresta gerð Nesjavallavirkjunar um 2-3 ár, með tilheyrandi fjármagnskostnaði.

Sem fyrr segir, er kyndistöðin í dag ekki lengur notuð sem toppstöð, en heldur gildi sínu sem varaafl. Fyrir nokkrum árum kom til umræðu að fjarlægja stöðina, en við athugun kom í ljós að afar kostnaðarsamt yrði að setja hana upp á nýjum stað – auk þess sem slíkt gæti kallað að miklar framkvæmdir í dreifikerfinu. Þessu fagna allir góðir menn, nú á þessum fyrsta Stóra-kyndistöðvardegi… sem nú þegar hefur verið rætt um að halda hér eftir á fjögurra ára fresti, eins og Ólympíuleikana!

Gleðilegan Kyndistöðvardag!