Í dag er tíundi maí. Það var sólstrandarveður og ég labbaði eins og fínn maður um alla borg á stuttermaskyrtu, með soninn í barnavagninum. Fjandinn hafi það – sumarið er komið!
Það er ágætt að minna sig á þessa staðreynd þegar hlustað er á fréttaþættina eða vefmiðlarnir lesnir. Samkvæmt þeim er VG-fólk ömurlega leiðinlegt og miklir þvergirðingar eitthvað – að vilja ekki keyra í gegn þessar breytingar á stjórnarráðinu núna fyrir sumarið… eins og forsætisráðherra vill.
…núna fyrir sumarið. Það er tíundi fokkíng maí og fólk spásserar á stuttbuxum utandyra.
Það er ekki einu sinni búið að klára sjálft frumvarpið – hvað þá að leggja það fyrir þingið (þingið sem vel að merkja er með helling af stórum málum á dagskránni fyrst). Fyrir utan örfáa þingmenn og embættismenn veit enginn nákvæmlega hvaða breytingar frumvarpið felur í sér – hvaða verkefni verða færð á milli ráðuneyta, hvaða stofnunum þarf að skipta upp o.s.frv. Allir og amma þeirra munu þurfa að gefa umsagnir um þessar breytingar og væntanlega ætla menn að hlusta á þær athugasemdir?
Og stjórnarandstaðan… Má ekki reikna með því að hún hafi eitthvað um málið að segja? Uppstokkun stjórnarráðsins er stórmál, sem auðvitað þarf að ræða vandlega. Síðast í gær var lögð fram gríðarmikil skýrsla með úttekt á íslensku stjórnsýslunni. Til hvers að hafa fyrir að setja það plagg saman ef það þurfti ekkert að taka tillit til þess og málið var hvort sem er klappað og klárt?
Það er tíundi maí – og netskríbentar skilja ekkert í því að VG sé með efasemdir um að hægt verði að afgreiða öll fyrirliggjandi mál og stokka upp stjórnarráðið áður en Heimsmeistarakeppnin byrjar…
Og hvers vegna eru menn svona æstir? Jú, það liggur svo á að losna við Jón Bjarnason.
Óþol ákveðins hluta hinna talandi stétta í garð Jóns Bjarnasonar er slíkt að betra þykir að kasta til höndunum en að þola nokkrar vikur eða mánuði í viðbót af Jóni. (Nú tek ég fram að persónulega finnst mér liggja beint við að ef fækkað verður um VG-ráðherra, þá verði Jón sá fyrsti til að víkja. Og nei – mér var ekki skemmt yfir frammistöðu hans í sjónvarpsfréttunum í gær.) Þessi afstaða er hins vegar galin.
Í alvöru talað – það eru pistlahöfundar að ergja sig á því að ríkisstjórnin skuli ekki á fundi sínum í gær hafa tekið ákvörðun um breytingar á ríkisstjórninni og uppstokkun ráðuneyta. Erum við ekki að gleyma einu pínkulitlu smáatriði… að við höfum nú ennþá löggjafarsamkomu í þessu landi?
Það er tíundi maí. Það er ekki búið að leggja fram til fyrstu umræðu frumvarpið um stjórnarráðið – en samt er fólk að ergja sig út í VG-liða fyrir að vilja ekki láta eins og búið sé að afgreiða málið og fara strax að skipta í samræmi við það. Er ekki allt í lagi með menn?
Ætlum við virkilega ekkert að læra?
e.s. Og já, Jón – ef þú ert að lesa þetta: Þetta mál snýst EKKI um þig og afstöðu þína til ESB. Endurskipulagning stjórnarráðsins er miklu stærra og brýnna mál en svo.