Viðskiptablaðið segir frá spádómum hagfræðideildar Pricewaterhousecooper fyrir HM í fótbolta. Þar hafa hagfræðingarnir í greiningar- og endurskoðunarfyrirtækinu kunna ákveðið að bregða á leik og lesa saman úrslit HM í gegnum tíðina og ýmsar hagstærðir (fólksfjölda, landsframleiðslu pr. íbúa o.s.frv.)
Því er slegið upp að fólksfjöldi gagnist löndum ekki nema að takmörkuðu leyti til að ná árangri á knattspyrnuvellinum og ríkari löndin standi sig ekki betur en þau fátækari. Viðskiptablaðið slær því meira að segja upp í fyrirsögn (og leitar þar í smiðju BBC) að líklega verði næstu heimsmeistarar frá fátæku landi.
Þessi frétt vakti undrun mína og ég reyndi að finna skýrsluna sem að baki henni liggur. Fann hins vegar bara þessa fréttatilkynningu frá PWC, sem bætir ekki mjög miklu við.
Ástæðan fyrir furðu minni er sú að þessi niðurstaða PWC gengur þvert á þær rannsóknir sem ég hef áður séð á tengslum efnahagslegra og félagslegra þátta varðandi velgengni á fótboltavellinum. Simon Cuper og David Goldblatt hafa báðir samið yfirgripsmiklar bækur um heimsfótboltann, þar sem færð eru fyrir því sannfærandi rök að efnahagslegur styrkur sé einmitt góð vísbending árangur innan vallar – einkum að teknu tilliti til fólksfjölda. PWC virðist því komast að þveröfugri niðurstöðu. Ég þyrfti því að sjá meira af forsendum endurskoðendanna áður en ég læt sannfærast.
Cuper og Goldblatt hafa báðir bent á að drottnunarstaða Bretlands á knattspyrnusviðinu hafi hnignað samhliða því að Bretar glötuðu efnahagslegum styrk sínum á alþjóðamarkaði. Svipaða fylgni má sjá hjá mörgum Evrópuríkjum.
PWC hefur góðan árangur ríkja frá Rómönsku Ameríku til marks um að veraldlegur auður tryggi ekki endilega titla í hús. En þessi ályktun er sögulega hæpin. Hún lítur t.d. fram hjá því hversu sterk hagkerfi sumra þessara landa voru stóran hluta tuttugustu aldar.
Uruguay var t.a.m. kallað „Sviss Vesturálfu“ og þjóðartekjur pr. mann voru um og fyrir miðja síðustu öld hærri en í nær öllum ríkjum Evrópu. Það var einmitt á þessum árum sem Uruguay varð heimsmeistari 1930 og 1950 – og missti naumlega af titlinum 1954. Hrun Uruguay sem stórveldis í heimsknattspyrnunni helst raunar í hendur við þróun efnahagsmála í landinu.
Argentína er annað dæmi um flókinn efnahagslegan veruleika Suður-Ameríku. Evrópubúar hafa kannski einhverja staðalmynd af skítugum og berfættum Argentínumönnum að elta bolta í niðurníddum borgum – en veruleikinn er sá að saga Argentínu hefur að geyma bæði einhver örustu efnahagslegu vaxtarskeið og dýpstu efnahagskreppur nokkurs hagkerfis. Í það minnsta er út í hött að afgreiða Argentínu tuttugustu aldar sem fátækt land.
Og hvað má þá segja um Brasilíu? Þótt þar megi vissulega finna mikla fátækt, er Brasilía eitt stærsta hagkerfi heims. Ef G8-hópurinn ætti í raun að endurspegla stærð hagkerfa, væri Brasilía þar á meðal en ekki t.d. Kanada.
Við fyrstu sýn virðist þessi samantekt PWC grunn og yfirborðskennd, á sviði þar sem miklar rannsóknir hafa farið fram á undanförnum árum. Ég er langt frá því að vera heillaður.