Ég hef alltaf verið tvístígandi gagnvart sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarmál hafa aldrei vakið sama áhuga minn og landsmálin – og listarnir sem í boði eru yfirleitt umtalsvert veikari. Sveitarstjórnarmálin hafa þó einn kost umfram landsmálin: þar nota menn listann.
Flokkarnir leggja fram langa framboðslista til þings, en flest nöfnin eru upp á punt. Annað hvort nærðu kjöri inn á þing – eða ekki. Sá sem nær kjöri sem þingmaður er kominn í rúmlega fullt starf og situr í nefndum og ráðum um allar trissur, næsti maður á lista fær kannski símtal eftir þrjú ár þar sem hann er beðinn um að hlaupa í skarðið í hálfan mánuð og sá sem er í sætinu þar fyrir neðan gerir ekki neitt.
Það er eitthvað rangt við það að nýta ekki krafta fólks sem er sannarlega reiðubúið að vinna.
Í sveitarstjórnarmálunum er þetta öðruvísi. Þar fá ansi margir af listanum verkefni (einkum ef flokkurinn þeirra lendir í meirihluta). Þannig þarf það ekki vera svo ýkjamikill munur á því að vera aðalmaður eða varamaður. Varamenn þurfa sífellt að fylgjast með og vera inni í öllum málum – og jafnvel fólk lengst niðri á lista getur lent í að stýra stórum nefndum. – Þetta hefur mér alltaf fundist dálítið sjarmerandi.
En einmitt vegna þessarar tilhögunnar, hefur mér fundist furðulegt þegar framboð í sveitarstjórnum apa það upp eftir landsmálapólitíkinni að auglýsa bara oddvitana sína eða efsu 2-3 sætin. Í þessum kosningum eiga menn einmitt að vera duglegir við að kynna fólkið sem ekki er í öllum umræðuþáttunum í fjölmiðlunum, en mun samt hafa stóru hlutverki að gegna eftir kosningar.
Mér sýnist í fljótu bragði að ENGINN flokkur í Reykjavík hafi sent mér bækling með myndum, nöfnum og upplýsingum um alla frambjóðendur sína. Og mér finnst það ömurlegt. Ég veit að: Hanna Birna, Sóley, Jón, Dagur, Einar og Ólafur leiða sína framboðslista – en hvað með sætin þar á eftir?
Ég er svo sem löngu ákveðinn í að kjósa VG í kosningunum. Menn þurfa ekki að fylgjast mikið með pólitík til að vita að þar skipa Sóley Tómasdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson tvö efstu sætin. Þau hafa setið í borgarstjórn og flestir hafa því getað myndað sér skoðun á þeim nú þegar. Fyrir fjórum árum voru Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson í tveimur efstu sætunum. Ég held að það sé ekkert á þau Sóleyju og Þorleif hallað þótt maður viðurkenni að toppsætin tvö voru sterkari þá en núna.
Sætin þar á eftir eru hins vegar fjári góð og mættu gjarnan fá meiri athygli:
Líf Magneudóttir er í þriðja sæti. Líf þekki ég frá því gamla daga úr Hagaskólanum, auk þess sem við eigum allnokkra sameiginlega kunningja. Hún er eldklár og flottur frambjóðandi, sem hefur átt mjög fína innkomu í pólitíkina við erfiðar aðstæður. Ég ætla bara rétt að vona að hún nái að beita sér í borgarmálunum á þessu kjörtímabili og verði svo ofar eftir fjögur ár.
Elín Sigurðardóttir er í fjórða sætinu. Hún hefur m.a. setið í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga með mér og er pottþétt manneskja. Það er varla hægt að hugsa sér betri kandídat í að sitja í velferðar- og félagsmálanefndunum til að skylmast við íhaldskonurnar í drögtunum.
Davíð Stefánsson er fimmti. Hann er líka gamall miðnefndarmaður úr SHA, sem gagnast vel til vinnu. Frjór og hugmyndaríkur.
Hermann Valsson er í sjötta sætinu. Hann þekki ég í gegnum pólitíkina en ekki síður í tengslum við fótboltann og Fram. Í flokki sem inniheldur vænan slatta af antisportistum, er Hemmi bráðnauðsynlegur – enda eru íþróttamálin mjög veigamikill málaflokkur á sveitarstjórnarstiginu.
Þetta fólk fær allt mín bestu meðmæli.