Íslenskir fótboltaskríbentar eru uppteknir við að fjalla um hrakfarir Englendinga og annað mun væntanlega ekki komast að á þeim bænum þangað til Tjallarnir verða dottnir úr keppni. Á meðan taka fæstir eftir því sem þó er öllu áhugaverðara: yfirvofandi skipbroti Afríku á HM.
Afríka á sex keppnislið á mótinu. Þeir sem bjartsýnastir voru fyrir þeirra hönd áður en HM byrjaði spáðu einu afrísku liði í undanúrslit hið minnsta og a.m.k. tveimur liðum í fjórðungsúrslit.
Nú er svo komið að þrjú þessara afrísku liða eru komin í verulega vond mál. Suður-Afríka er nánast úr leik. Alsír á litla möguleika og Nígería er í vondri stöðu.
Kamerún, Ghana og Fílabeinsströndin eru hvert um sig í 50% séns á að komast áfram – og ólíklegra en hitt að nokkru þeirra takist að næla sér í toppsæti. Það má því ekki mikið klikka til að sú staða getið komið upp að Afríka eigi EKKERT líð í 16-liða úrslitum.
Það yrðu vonbrigði á pari við HM í handbolta á Íslandi hér um árið…