Fjölmiðlar hafa gert sér mat úr orðum Jóns Gnarrs þess efnis að Múmínpabbi hafi lýst þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að ganga í ESB. Þetta hefur ýmsum þótt sniðugt og verið til þess tekið hversu gaman sé að hafa borgarstjóra sem kunni sín Múmínálfafræði.
Eðlilegri viðbrögð væru þó að spyrja hvort Jón sé gjörsamlega úti á þekju í Múmínálfabókunum?
Að leita til Múmínpabba sem djúpviturs snillings er á pari við að álíta Bjart í Sumarhúsum hetjuna í Sjálfstæðu fólki. Múmínpabbi er nefnilega hálfgerður aulabárður og einhver kómískasta persóna bókaflokksins.
Hann lítur á sig sem rithöfund, en margoft kemur fram í bókunum hversu liðónýtur hann er á því sviði. Hann hefur hins vegar mikið egó og er óskaplega viðkvæmur fyrir allri gagnrýni. Múmínpabbi er – eins og ansi margar aukapersónur í Múmíndalnum – afar sjálfhverfur og þurfa aðrir endalaust að eltast við dyntina í honum. Þannig fjallað heil bók, Eyjan hans Múmínpabba, um miðaldrakrísu sem grípur karlinn með þeim afleiðingum að hann teymir alla famelíuna á eyðisker.
Meðalathugull lesandi uppgötvar strax að Múmínpabbi er hálfgerður fáráður. Hins vegar – og það er hluti af snilldinni – telur Múmínsnáðinn pabba sinn vera gáfaðasta mann í heimi. Hin skemmtilega blinda (eða umburðarlyndi) gagnvart pesónubrestum ýmissa íbúa Múmíndals er eitt af einkennum bókaflokksins.
Hafi Jón Gnarr í raun og veru farið í Múmíndalinn og veðjað á Múmúnpabba sem ráðgjafa, bara vegna þess að hann á svo fínan og háan hatt, þá er það meiriháttar klúður. En til hvers hefði Jón þá átt að leita?
Í Múmíndal er mikið af fræðingum sem eflaust hefðu getað lagt meira til málanna. Bísamrottan er vel að sér í heimspeki og náttúruvísindum, en reyndar svo bölsýn að líklega hefði hún vísað Íslandi á Parísarklúbbinn frekar en annað. Sumir hemúlarnir eru miklir sérfræðingar á sínum sviðum, en skortir tilfinningagreind til að vera góðir ráðgjafar. Snorkurinn er skarpur strákur. Hann hugsar mikið í tæknilausnum og væri örugglega hallur undir ESB.
En hafi markmiðið verið að finna vitrasta íbúa dalsins koma helst þrjár persónur til greina.
Jón Gnarr segist vera anarkisti og því hefði Snúður átt að vera sjálfsagður kostur. Snúður er hins vegar andsnúinn öllu yfirvaldi og hefði líklega þótt spurningin hlægileg. Reikna með að hann sé á móti öllum ríkjabandalögum og raunar öllum landamærum.
Þá eru eftir tvær vitrar persónur. Fyrst ber að nefna Múmínmömmu, sem er hinn eiginlegi stjórnandi í Múmíndal. Hún er landsmóðirin mikla. Til hennar leita menn með vandamál sín og alltaf tekst henni að töfra fram lausnir. – Þrátt fyrir þetta er hún á köflum dómgreindarlaus á sitt eigið fólk.
Gáfuðust allra í Múmímdal er þó Tikka-Tú, sem er ásamt Múmínsnáðanum í aðalhlutverki í Vetrarundrunum. Hún er mestur mannþekkjari allra sem fyrir koma í bókaflokknum og raunar undrast maður það helst við lestur Vetrarundranna, hvað þetta klók vera nennir að hanga með aulabárði eins og Múmínsnáðanum.
Það hefði nú verið nær að leita álits hjá þessum sómakonum…