Fyrir u.þ.b. ári síðan bloggaði ég um stöðu og horfur í ensku utandeildinni. Ég greip til samlíkinga og sagði að Luton væri Manchester United og Oxford væri Chelsea mótsins. Samanburðurinn átti rétt á sér. Luton er það félag í utandeildinni sem á langflesta stuðningsmennina, hæstlaunuðu leikmennina og öflugasta hópinn. Oxford kom þar fast á eftir.
Svo fór að lokum að Oxford komst upp en Luton sat eftir. Stevenage skaut hins vegar báðum liðunum aftur fyrir sig.
Nú er komið að næsta keppnistímabili – og að þessu sinni verður deildin mun sterkari en í fyrra. Luton er áfram Manchester United. Liðin sem féllu: Grimsby og Darlington, mæta t.d. bæði kokhraust til leiks. York ætti sömuleiðis að vera sterkt og eflaust fleiri lið til viðbótar.
En stóra spurningamerkið í ár verður þó Crawley Town. Annað hvort verður Crawley í hlutverki Manchester City eða Portsmouth…
Crawley eru nýliðar – skriðu upp um deild í fyrra eftir tímabil þar sem allt var í skralli. Reyndar hefur Crawley verið á hausnum í mörg ár og varið drjúgum tíma í réttarsölum vegna þessa. Í vor var Crawley einna efst á lista veðmangara yfir lið sem væru likleg til að ná ekki að ljúka keppni á komandi leiktíð. En svo rann upp júlímánuður…
Stjórnendur Crawley efndu þá óvænt til blaðamannafundar og tilkynntu að fjárhagsleg afkoma liðsins væri tryggð, þeir ættu skítnógan pening og ætluðu sér toppsætið. Upp frá því hefur Crawley boðið í allt sem hreyfist og sankar að sér leikmönnum. Skyndilega er Crawley orðið raunverulegur meistarakandídat – vandinn er að marga grunar að um svikamyllu sé að ræða og allt hljóti þetta að enda með tárum.
Spennan magnast – mótið hefst eftir viku.