HM 1938 (b)

Heimsmeistarakeppnin í Frakklandi 1938 er yfirleitt það mót sem fær fæstar blaðsíður í sögubókum um HM. Ítalir urðu heimsmeistarar og eru líklega verst þokkaða sigurlið sögunnar – amk eftir á að hyggja – (voru óspart með fasistakveðjur á lofti, léku í svarta fasistalitnum gegn heimamönnum o.s.frv.)

Austurríki hefði væntanlega getað teflt fram frábæru liði, en skömmu fyrir mótið var landið innlimað í Þriðja ríkið. Aðalkempa þeirra neitaði að spila fyrir Þýskaland og var líklega myrtur fyrir vikið.

Stjarna keppninnar var Leonidas og einhver magnaðasti leikur í sögu HM leit dagsins ljós, Brasilía 6 : Pólland 5. Wilimowski skoraði fernu fyrir Pólverja. Hann átti síðar eftir að leika fyrir Þjóðverja á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, sem er líklega ástæða þess að þessi mikli markaskorari hefur verið að mestu strikaður út úr knattspyrnusögunni.

Indónesía varð fyrsta Asíuliðið í úrslitakeppninni, undir heitinu Hollensku Austur-Indíur. Kúba var með og komst í aðra umferð.

Til er heimildarmynd um þessa keppni, sem einhverra hluta vegna hefur farið mjög lágt. Ég minnist þess að hafa séð einhverja myndbúta frá HM 1938, en óraði ekki fyrir að til væri heildstæð hálftímalöng mynd, fyrr en ég rambaði á hana í dag. Hana má sjá hér. Myndin er á frönsku og greinilega gerð fyrir heimamarkað. Þannig er mjög kúnstugt að sjá mótið rakið í réttri tímaröð, með einni undantekningu. Leikur Ítalíu og Frakklands í fjórðungsúrslitum er ekki rakinn um leið og hinir fjórðungsúrslitaleikirnir, heldur er beðið með hann þar til byrjað er að segja frá úrslitaviðureign Ítala og Ungverja – þá er myndunum úr Frakklandsleiknum skotið inn á milli – eins og til að árétta að úrslitaleikir mótsins hafi í raun verið tveir.

Það vantar svipmyndir úr fáeinum leikjum, þar á meðal leiknum um þriðja sætið. Þá er ekki að sjá fræg atvik, s.s. þegar tékkneski markvörðurinn kjálkabrotnaði í ljótu samstuði. Og mig minnti endilega að Leonidas hefði náð að skora mark með hjólhestaspyrnu á HM, en það er ekki að sjá af þessum myndum.