Göngurnar, klóakið og námskeiðið

Einhverra hluta vegna er alltaf mest hjá mér að gera á tímabilinu frá miðjum ágúst og fram í lok október. Öll verkefni virðast meira og minna lenda á þessum vikum og þótt ég lofi mér á hverju ári að reyna að dreifa verkefnunum skynsamlegar þá tekst það aldrei. Ekki að ég sé að kvarta – það er alltaf betra að hafa of mikið að gera en of lítið.

Þrjú verkefni taka einna mestan tíma næstu daga og vaskir lesendur síðunnar geta margir hverjir tekið þátt í þeim með mér.

Fyrst eru það göngurnar. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri í vinnunni minni hjá Orkuveitunni, eru fræðslugöngurnar. Einar Gunnlaugsson jarðfræðingur hjá OR og Kristinn Þorsteinsson, sem stjórnaði lengi garðyrkjudeild fyrirtækisins, fóru af stað með þessar göngur fyrir allnokkrum árum. Eitt árið fengu þeir mig til að stýra sögugöngu um Elliðaárdalinn og þá varð ekki aftur snúið.

Núna er það fastur liður hjá mér á sumrin að stjórna tveimur sögugöngum í Elliðaárdalnum (efra og neðra svæði) á vegum Orkuveitunnar. Í kringum Jónsmessuna tek ég svo þriðju sögugönguna ásamt gömlum skólabróður, Guðbrandi Benediktssyni frá Árbæjarsafni. Þá kem ég að löngu Elliðaárdalsgöngunni, þar sem gengið er frá Minjasafninu að Gvendarbrunnum.

Í fyrra prófuðum við að halda sögugöngu í Laugardalnum og hún verður endurtekin annað kvöld, þriðjudagskvöld. (Lagt af stað fraá Þvottalaugunum kl. 19:30, allir velkomnir.) Laugardalssvæðið er þrungið sögu, en aðaláherslan verður lögð á sögu orkunýtingar, þótt fleira beri á góma s.s. dónalegar styttur, sígaunar og dr. Helgi Pjeturs.

Eftir viku ætlum við Einar Gunnlaugsson svo að brydda upp á nýjung hjá Orkuveitunni: fræðslugöngu um Öskjuhlíðina. Fyrr í sumar tók ég að mér að lóðsa hóp kvenna úr orkugeiranum um Öskjuhlíð, með áherslu á herminjar. Það gekk þrælvel og ég bind miklar vonir við þessa göngu. Nánar plöggað síðar.

Fræðslugöngur eru eiginlega það skemmtilegasta sem ég veit. (Já, líklega er það aldurinn sem er hér að tala.) Og miðað við mætinguna hjá okkur í OR-göngunum er eftirspurnin næg. Gönguferðir með leiðsögn eru einhver öflugasta leið sem til er þegar kemur að því að miðla sögu og fróðleik.

Klóakið kemur við sögu á Menningarnótt, n.k. laugardag. Að þessu sinni verð ég Off venue (verða Off venue-samkomurnar ekki alltaf að lokum miklu stærri og flottari en aðalhátíðarnar?)

Fyrir þremur árum, 2007, settu Orkuveitumenn upp smálistviðburði í gömlu aðveitustöðinni við Austurbæjarskólann á Menningarnótt. Ég kom ekki mikið að því – nema jú, ég sá um sögugöngu (surprise, surprise!) úr Þvottalaugunum að Austurbæjarskóla. 2008 ákváðum við að fara í hina áttina og stóðum (ásamt Árbæjarsafni) fyrir sögugöngu frá Hlemmi (gömlu Gasstöðinni) að Þvottalaugunum og í Grasagarðinn. Þar var gamla dælustöðin í Þvottalaugunum opnuð almenningi, einu sinni sem oftar.

Í fyrra var ákveðið að halda sínu striki og að Orkuveitan myndi opna eitt af fjölmörgum mannvirkjum sínum á Menningarnótt. Þetta verkefni var fyrst og fremst hugarfóstur okkar Baldurs Sigurðssonar kollega míns, sem vinnur á umsýslu fasteigna. Við sýndum vatnsgeyminn á Litluhlíð, fengum listfenga vinnufélaga til að sýna myndir, málverk og spila á hljóðfæri og gestir fengu kaffi og piparkökur. Landsnet opnaði stjórnstöð sína í næsta húsi, en því miður afþakkaði Veðurstofan að taka þátt.

Þegar kom að því að velja starfstöð Orkuveitunnar til að sýna á Menningarnótt 2010, var valið ekki erfitt. Hreinsi- og dælustöðin Klettagörðum er klárlega á topp 10-listanum yfir svölustu mannvirki Reykjavíkur. Þangað er skólpinu frá eystribyggðum Reykjavíkur safnað saman, það hreinsað og svo dælt á haf út. Að fá að fara þarna inn, líta á græjurnar og rabba við stjórnendurnar er raðfullnæging tækninördsins.

Og ef maður er með svona flottar dælur og pípur, með stór og mikil bílastæði á besta stað í Reykajvík með útsýni yfir sundin… hvað vantar þá bara? Jú, auðvitað kagga! Svo við hnipptum í Kadda-klúbbinn og sömdum við hann um að mæta með Kádiljákana sína og stilla þeim upp meðan á opna húsinu stendur, frá kl. 16 til 18. Frægasti kadda-kall landsins er auðvitað Ólafur Gunnarsson rithöfundur sem mætir og les úr verkum sínum. Hann er svo aftur vinur hans Dóra – svo auðvitað mætir Dóri sjálfur og spilar blús.

Þetta verður svakalega flott dagskrá, en sem fyrr segir verður hún Off venue og því ekki kynnt á opinberri dagskrá Menningarnætur – enda hefur hún verið skilgreind þannig að allir atburðir skuli gerast vestan Rauðarárstígs. Rauðarárstígur-Schmauðarárstígur…. straumurinn verður í Laugarnesið  á dagskránna: Klóak og kadilak í Klettagörðum.

Námskeiðið er svo stóra verkefni haustsins. Minjasafn Orkuveitunnar og Sagnfræðideild Háskólans hafa í haust samstarf um námskeiðið Tækni og saga: Þróun borgarmenningar á Íslandi 1909-2009, sem er almennt valnámskeið á BA-stigi við sagnfræðina í HÍ.

Ég er ákaflega spenntur fyrir þessu verkefni, enda verður þetta í fyrsta sinn sem ég sé um háskólanámskeið frá a-ö (skipulegg frá grunni og kenni). Efnið er fyrst og fremst þróunarsaga Reykjavíkur sem borgar, með höfuðáherslu á tæknikerfi (og þá einkum orkukerfi), auk þess sem nemendur fá innsýn inn í almenna tæknisögu þar sem tvö amerísk öndvegisrit í faginu verða til grundvallar.

Þetta er námskeið sem mig hefur í tíu ár dreymt um að kenna. Sagnfræðideildin fær vinsælt valnámskeið (tæplega 30 skráðir) með fínum akademískum standard. Og Orkuveitan vinnur að settum markmiðum sínum um stuðning við háskólastigið og hlýtur að fagna því að nýútkomin saga hennar sé notuð sem lykilkennsluefni í háskólanámskeiði. Allir græða.