Tölvusafn

Oddur Benediktsson, prófessor emeritus, lést á þriðjudaginn. Tilkynning um það var send á alla starfsmenn Háskóla Íslands í gær.

Þar er fallinn frá einn af lykilmönnunum í sögu íslenskrar tölvuvæðingar. Hann var fyrsti heiðursfélagi Félags tölvunarfræðinga og væri raunar langt mál að telja upp allar hans viðurkenningar fyrir störf á því sviði.

Oddi kynntist ég lítillega í gegnum vinnuna. Hann var ein aðalsprautan í í öldungahópi Skýrslutæknifélagsins, sem er hópur gamalreyndra tölvumanna sem hafa barist fyrir því að varðveita muni, myndir og gögn sem tengjast sögu og þróun tölvu- og upplýsingatækni á Íslandi. Það hefur verið þrautin þyngri af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi úreldist tölvubúnaður svo hratt að honum hefur yfirleitt verið fargað löngu áður en menn átta sig á sögulegu gildi hans. Búnaðurinn er plássfrekur. Í tölvugeiranum er mikið af ungum yfirmönnum sem hafa engan áhuga á sögunni. Og varðveisla á tölvumunum krefst tækniþekkingar sem safnafólk hefur í fæstum tilvikum yfir að búa.

Öldungarnir í Skýrslutæknifélaginu hafa lengi átt þann draum að stofnað yrði Tölvusafn. Ef ekki sem sjálfstæð stofnun, þá innan einhvers stærra safns eða stofnunar. Í millitíðinni er söfnun þessara minja að mestu í höndum einstaklinga, eins og Odds Benediktssonar.

Mér skilst að Oddur hafi sjálfur átt gríðarmerkilegt safn tölvubúnaðar, einkum IBM-véla, sem slái út þann rýra tölvukost sem finna megi í geymslum stóru safnanna. Ég veit líka að fjölskylda hans gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þessarar söfnunar.

Best væri ef safn Odds gæti myndað stofninn að Tölvusafni Íslands. Opinberir aðilar, fyrirtæki í tölvugeiranum og Háskólinn ættu að vinna saman að því að gera þessa sögu aðgengilega og tryggja að haldið verði utan um söfnun og skráningu. Það væri veglegur minnisvarði um glæsta starfsævi.