BSÍ er skrítið fyrirbæri og hefur alltaf verið. Að nafninu til á BSÍ að heita einhver aðalsamgöngumiðstöð Reykjavíkur og þaðan keyra rúturnar útá land. Samt var aðalrútuleið landsins: Reykajavík-Keflavíkurflugvöllur um árabil með endastöð á Reykajvíkurflugvelli (og það vel að merkja í annarri af TVEIMUR flugstöðvum Reykjavíkurflugvallar… þeirri sem færri vélar fóru um).
BSÍ var líka illa tengd varðandi strætósamgöngur. Enginn strætisvagn stoppaði beint fyrir framan BSÍ og þar í grenndinni bara vagnar frá SVR á meðan sveitarfélögin héldu hvert úti sínu strætókerfi.
Samt hafði BSÍ ákveðna stöðu sem einhvers konar pósthús. Hluti af póstsendingum innanlands fór fram í gegnum rúturnar og hafði afgreiðslu á BSÍ. Gott ef BSÍ hafði ekki eigið póstnúmer (102 frekar en 106).
Og þar sem BSÍ hafði stöðu einhvers konar umferðarmiðstöðvar, mátti sjoppan þar vera opin allan sólarhringinn. Ég man eftir bílferðum sem táningur í BSÍ, sem þá var eini sénsinn til að kaupa pylsu með öllu eða sígarettur eftir miðnætti. Þarna var líka bensíndæla þar sem hægt var að kaupa bensín utan hefðbundins afgreiðslutíma bensínstöðva fyrir tíma sjálfsala.
Í dag er þarna fyrst og fremst rennerí af íslenskum körlum sem kaupa sér heitan mat í hádeginu. Rautt kjöt með brúnni sósu og ekkert kjaftæði.
Sem einhvers konar miðpunktur í samgöngukerfi er BSÍ algjört klúður. En vissulega eru þarna góð bílaplön.
Ráðherra Vaðlaheiðargangamála fékk það á heilann að flytja skyldi BSÍ að Flugvallarvegi og nota þann flutning sem skálkaskjól fyrir að reisa nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll. (Væntanlega í þeirri von að bygging slíkrar flugstöðvar myndi festa flugvöllinn í sessi um ókomna framtíð). Einhverra hluta vegna hefur þetta samgöngumiðstöðvarmál fengið að malla áfram óáreitt og það með einhvers konar blessun lífeyrissjóðanna (eins og það sé hlutverk þeirra sem lánveitanda að ákveða hvernig lántakinn, ríkið, forgangsraðar framkvæmdum sínum).
Nema hvað – einhvern veginn sýnist manni eins og að þeir sem setja spurningamerki við samgöngumiðstöðina/flugstöðina ætli nú að bregðast við með því að fara að hampa BSÍ (væntanlega út frá prinsipinu um að óvinur óvinar manns hljóti að vera vinur). Þannig er nú farið að tala um BSÍ sem nýja aðalskiptistöð Strætó í staðinn fyrir Hlemm. Og það er langt seilst í rökstuðningnum – jú, það á að vera svo heppilegt að tengja strætókerfið við rútubílakerfið…
…það verður helvíti fínt fyrir þau 0,00001% farþega strætó sem voru einmitt að fara að taka vagninn ofan úr Breiðholti til að ná morgunrútunni til Grundarfjarðar….