Það er erfitt að segja mikið í sjöhundruð slögum (hvort sem er með eða án bila). Þetta er þó það rými sem landskjörstjórn úthlutar hverjum frambjóðanda til stjórnlagaþings til að svara spurningunni um það hvers vegna viðkomandi bjóði sig fram. Svörin verða svo birt í opinberu kynningarefni vegna kjörsins.
Um kvöldmatarleytið skilaði ég framboðinu mínu rafrænt og notaði sjöhundruð slögin mín á þessa leið:
Árið 2003 tóku tveir menn upp á sitt einsdæmi ákvörðun um að Ísland gerðist stuðningsaðili stríðs í fjarlægu landi. Í ljós kom að ekkert í stjórnskipun Íslands hindraði þessa ákvörðun. Við endurskoðun stjórnarskárinnar er brýnt að taka á þessu.
Æskilegast væri að kveða skýrt á um það í stjórnarskrá að Ísland megi ekki fara með stríði á hendur öðrum þjóðum. Tekið verði fram að Ísland skuli vera herlaust land og að herskyldu megi aldrei í lög leiða. Fram komi að umferð og geymsla kjarnorkuvopna sé óheimil í íslenskri lögsögu.
Megintilgangurinn með framboði mínu til stjórnlagaþings er að tryggja að sjónarmiðum friðar og afvopnunar verði haldið á lofti við gerð nýrrar stjórnarskrár.
Þetta eru sjónarmið sem ég trúi að muni eiga góðan hljómgrunn á þinginu, en það er til lítils nema einhverjir verði til að halda þeim á lofti.