Ógæfa vinstrimanna

Ég byrjaði að taka þátt í flokkapólitík um svipað leyti og ég byrjaði í menntó, haustið 1991. Fyrst tók ég þátt í hefðbundnu ungliðahreyfingarstarfi í Alþýðubandalaginu – en innan skamms var ég líka kominn á bólakaf í „fullorðins“-starfið, s.s. í stjórn kjördæmisráðsins í Reykjavík og í stjórn nýs aðildarfélags, Framsýnar.

Þetta voru ekki góðir tímar hjá Alþýðubandalaginu. Innanflokkserjur voru miklar – en það var í sjálfu sér ekkert nýtt, Allaballar höfðu rifist í áratugi. Þarna var það hins vegar að gerast að sífellt fleiri voru að komast á þá skoðun að uppstokkun flokkakerfisins væri óumflýjanleg, þetta væri bara spurning um tíma.

Frá því um 1992 til ársins 1999, snerist eiginlega öll pólitík á vinstri vængnum um innra skipulag: hvort stjórnmálaöflin vinstra megin við Framsóknarflokkinn ættu að vera eitt, tvö eða þrjú – og hver væru æskileg stærðarhlutföll á milli þeirra. Þessi sífellda umræða um skipulagsmál kæfði eiginlega alla aðra pólitíska umræðu. Og öll starfsemi flokkanna tók mið af því að fæstir töldu þá eiga langt eftir.

Eftir 1999, með tilkomu Samfylkingarinnar og VG, tók við annað tímabil – sem var vissulega skárra fyrir geðheilsuna: uppbygging nýrra flokka. Megnið af orku vinstrimanna fór þá í að búa til innviði þessara nýstofnuðu hreyfinga, stofna deildir, safna félögum og hrista saman hópinn. Þetta var auðvitað mun uppbyggilegri iðja en þrefið á tíunda áratugnum, en vandamálið var það sama: stjórnmálavafstur vinstrimanna snerist fyrst og fremst um eigin skipulagsmál.

Þegar menn skammast yfir tjóninu sem nýfrjálshyggjan og samfelld valdaseta Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2008 olli, þá gleyma menn oft þessum þætti: að mestallan þennan tíma vanræktu vinstrimenn að veita íhaldinu hugmyndafræðilegt aðhald. Menn voru of uppteknir við að rífast um hvort flokkarnir ættu að vera tveir eða þrír…

Þess vegna verð ég hálfþunglyndur þegar ég les hugmyndir eins og þær sem raktar eru á forsíðu Fbl. í dag, þess efnis að næsta verkefni sé að reyna að stokka upp flokkakerfið – að sameina flokka eða búa til nýja með hlutum úr hinum og þessum núverandi hreyfingum. Eftir að hafa horft upp á vinstrivænginn eyða 13-14 árum í að velta sér uppúr formi og skipulagi, hryllir  mig við tilhugsuninni um að byrja aftur upp á nýtt.