Fótboltasaga mín 73/100 Stéttskiptingin

8. janúar 2011. Bath 0 : Luton 0

Í janúar 2009 fór fyrsti Luton-tvíæringurinn fram. Og þó! Strangt til tekið var það ekki orðið tvíæringur fyrr en tveimur árum seinna þegar ráðist var í ferð númer tvö.

Ég, Valur Norðri og Raggi Kristins höfðum keypt flugmiðana áður en Ísland varð gjaldþrota – það voru því ekki margir að leggjast í fótboltareisur þessa þunglyndislegu janúardaga 2009 í miðri búsáhaldabyltingu.

Við fórum á tapleik Luton í Darlington, eins og áður hefur verið rakið í þessum greinabálki. Í rútunni á flugvöllinn á leiðinni til baka ákváðum við að halda áfram að borga mánaðarlega inn á söfnunarreikninginn þegar heim kæmi. Það væri passlegt að fara aftur út 2011. Fljótlega fékk ferðahópurinn nafnið tvíæringurinn, eins og í nafni Feneyjatvíæringsins (sem ég hélt ótrúlega lengi að væri nefndur eftir einhverjum skrítnum báti, gondól eða álíka, tví-æringur).

Fyrir óinnvígða, þá virkar Luton-tvíæringurinn svona: Þegar ljóst er að vori hvaða lið Luton mætir árið eftir, þá býr félagi Ragnar til lista þar sem liðunum er raðað eftir því hversu eftirsóknarverðir áfangastaðir viðkomandi borgir teljast. Lið frá Lundúnum lenda sjálfkrafa í neðsta flokki. Sama gildir um lið í stórum borgum eins og Birmingham og Manchester. Í efstu flokkunum eru smáborgir, helst í norðrinu, sem kippa manni aftur um tuttugu ár. Aðalkrafan er um að nóg sé af góðum Real Ale-pöbbum og von á kebabi sem rotað gæti hest og curry sem minnir á sig í viku á eftir.

Þegar leikjaplanið er birt í júlí er svo lagst yfir dagatalið og kannað hvaða útileikur Luton á tímabilinu frá svona 5. janúar til 20. febrúar falli best að þessum skilyrðum. Reikna þarf inn í hættuna á frestuðum leikjum vegna bikarkeppna. Síðastnefnda atriðið höfðum við reyndar ekki passað þarna í öðrum tvíæringnum. Luton var hársbreidd frá því að slá Charlton út úr 2. umferð bikarkeppninnar. Þá hefðum við neyðst til að mæta á fokkíng White Hart Lane þessa helgi. Sem betur fer gerðist það ekki.

2011 var það raunar engin lágstéttarborg sem varð fyrir valinu, heldur hin gullfallega og forna rómverska borg Bath. Nokkurn veginn miðja vegu á milli Bath og flugvallarins okkar lá svo borgin Reading, sem við gerðum að aðalbækistöð.

Þetta var annar vetur Luton í utandeildinni. (Þeir urðu fimm í allt.) Enn vorum við Luton-menn uppfullir af því að við værum alltof stórt félag fyrir þessa hlægilegu kúkalabbadeild og hlytum að vinna titilinn fyrir jól. Og annað árið í röð var staðan á töflunni í janúar farin að gefa vísbendingar um að þetta gæti orðið eilítið strembnara.

Við lögðum af stað frá lestarstöðinni í Reading og uppgötvuðum að við vorum ekki einir á leiðinni til Bath. Bath er einhver fremsta Rugbyborg Englands og lið Reading var að keppa þar þennan sama dag. Það voru hvítir og bláir treflar útum allt. Lestin stoppaði í miðborginni og við blasti glæsileg borgin, með rómverskum súlum milli grasi gróinna hæða með fallega á með fossum, sem fullkomnaði póstkortið. Þar í miðjunni var rugby-völlur bæjarins eins og perlan í djásninu.

Auðvitað lá leiðin strax á pöbbinn. Og þegar ég segi pöbbinn, þá meina ég auðvitað á hvern barinn á fætur öðrum. Rugby-stuðningsmennirnir voru út um allt. Stuðningsmenn beggja liða sátu hlið við hlið, ræddu leikinn og horfðu á útsendingar frá viðureignum sem byrjað höfðu fyrr. Allir voru vinir. Allir voru fallegir og vel tenntir.

Eftir þaulsetur og drjúga ölsmökkun, var tímabært að koma sér á völlinn. Bath FC á ekki gullfallegan Harry Potter-völl við lækjarnið í fagurri laut. Nei, völlurinn þeirra var fyrir utan miðborgina og við tók löng strætóferð. Og eftir því sem við ókum lengra, því ljótari urðu húsin. Fólkið hætti að vera í fínu og rándýru fötunum sem einkennt höfðu miðborg Bath. Og svo fór lögreglumönnunum að fjölga.

Við gengum síðasta spölinn. Það var slæðingur af fólki og löggur á hverju strái. Löggur í gulum vestum. Og löggur á þessum fáránlega stóru hestum sem tjallarnir telja hentuga við löggæslustörf. Ætli það hafi ekki verið fimm sinnum fleiri áhorfendur á rugby-leiknum sem átti sér stað á sama tíma í miðbænum. Líklega voru löggurnar fimm sinnum fleiri á fótboltavellinum.

Og já, tannhirðan var umtalsvert lakari.

Völlurinn var ljótur en þó sjarmerandi ljótur. Þrátt fyrir að lögreglan væri á hverju strái og liti á hvern áhorfanda sem líklegan hryðjuverkamann, drukku allir sem vildu saman á félagsbarnum undir stúkunni. Við komum hins vegar seint og gátum lítið stoppað þar.

Við fjórmenningarnir (auk mín, Vals og Ragga var Simon félagi okkar, fyrrum sendiráðsstarfsmaður Breta á Íslandi, með í ferðinni) höfðum tryggt okkur stúkusæti. Sáum samt pínkulítið á eftir því. Luton-stuðningsmennirnir í stæðunum fyrir aftan markið virtust skemmta sér miklu betur.

Það voru stúkur eða stæði meðfram þremur hliðum af fjórum. Hliðin andspænis aðalstúkunni var þó skemmtilegust. Hún stóð í brattri brekku, svo maður var smeykur um að sá efsti dytti til hliðar og svo myndi allur skarinn falla eins og dómínokubbar.

Heimamenn máttu eiga það að þeir lögðu sig fram. Það var einhvers konar púðurkerlinga/ljósasjóv þegar liðin gengu inn á völlinn, sem gerði þó alla vandræðalega. Við hölluðum okkur aftur á bak og biðum eftir að mörkunum færi að rigna. Það gerðist ekki.

Leikurinn var ótrúlega bragðdaufur. Aðalmarkaskorarinn okkar, Matthew Barnes-Homer, var úti á þekju. Claude Gnapka, fansí franski miðjumaðurinn, var ekki að gera neitt af viti. Og svo var fitukeppurinn Danny Crow í hinni framherjastöðunni. – Nei, ekki misskilja mig. Ég styð líkamsvirðingu af öllu hjarta… en Danny Crow var feitur. Fáránlega feitur fyrir stræker. Við erum að tala um Bibercic á Stjörnutímabilinu.

Luton átti sjittlóds af hálffærum, svo kannski hefðum við getað talið okkur trú um að hafa átt þrjú stig skilin. En á lokamínútunum fékk Bath 2-3 slík dauðafæri í leikslok prísaði maður sig sælan með stigið. Eitt þessara færa hefur varðveist á alnetinu sem engu gleymir. Það gefur vissa vísbendingu um gæði leiksins og völlinn…

Eftir á að hyggja var þessi leikur helst merkilegur fyrir eitt. Alex Lawless kom inná sem varamaður og lék þar með í fyrsta sinn í Luton-treyjunni. Er hægt að hugsa sér svalara nafn á miðjumanni? Og jú, með þessum leik varð Luton-tvíæringurinn í raun að tvíæringi. Hann verður haldinn í fjórða sinn í janúar komandi. Það eru níu manns bókaðir nú þegar (ég er sá eini í hópnum sem heldur í raun með Luton). Enn er ekki of seint að kaupa sér miða.