12. júní 2002. Svíþjóð 1 : Argentína 1
Á fyrri hluta tuttugustu aldar ákvað þing Alþjóða Ólympíunefndarinnar að nálega strika Ólympíuleikana 1906 út úr sögunni. Leikarnir höfðu raunar lukkast ágætlega og björguðu andliti Ólympíuhreyfingarinnar eftir misheppnaða Parísar- og St. Louis-leika tveimur og sex árum fyrr. En vanþakklátir íþróttaforkólfarnir horfðu fremur til þess hvað það yrði slæmt fyrir feng-sjúíið að fokka upp reglufestu þess að hafa fjögur ár á milli í sögunni, svo met og verðlaunahafar Aþenuleikarnir 1906 voru máðir úr sögubókum.
Það er ólíklegt að hreyfing rísi sem vill eyða HM 2002 úr sögunni. Væri þó tilefni til. Mótið í Japan og Suður-Kóreu var glatað, eins og komið hefur verið inná í þessum greinaflokki. Stemningin var skrítin. Sú tilhögun að hafa gestgjafaþjóðirnar tvær óheppileg. Hvert stórliðið á fætur öðrum olli vonbrigðum og tímamismunurinn var ömurlegur. Já og svo var þetta ekki sýnt á RÚV heldur Sýn.
Ég var áskrifandi og pínkulitla stofan á Hringbrautinni varð því félagsheimili yfir allnokkrum leikjum, sem sumir hverjir byrjuðu svívirðilega snemma. Verstir voru þó leikirinir kl. 6:10 á morgnanna. Einn slíkur var Argentína : Svíþjóð á miðvikudagsmorgni, í lokaleik F-riðils.
Þetta var árið þar sem þriðjudagar voru hinir nýju föstudagar. Þriðjudagskvöld þóttu tilvalin fyrir hvers kyns fundarhöld, sem yfirleitt enduðu á Næsta bar. Og þegar ekki voru fundir… þá fórum við bara fyrr á Næsta bar.
Kvöldið fyrir leikinn var engin undantekning. Ég, Palli Hilmars og Steinunn höfðum setið á Hringbrautinni og við Páll drukkið Bowmore-viský. Gott ef við átum ekki saman líka. Það hefur þá væntanlega verið kjötmeti, enda minnir mig að Páll hafi ekki verið orðinn grasbítur. Þegar klukkan var orðin nægilega margt héldum við á Næsta bar og hittum Stefán Jónsson og Þór Steinarsson, sem voru nýskriðnir af einhverjum VG-ungliðafundi. Það var alltaf hægt að treysta því að hitta einhvern sem maður þekkti á Næsta bar.
Auðvitað sátum við fram að lokun. Við sátum alltaf fram að lokun. Og við röltum heim og pikkuðum væntanlega upp einhvern skyndibita á leiðinni. Það var alltaf þannig.
Klukkan var orðin margt þegar ég sofnaði, kannski langt gengin í tvö. Það var samt engin miskunn hjá Magnúsi. Ég var búinn að bjóða fjölda manns í leikinn morguninn eftir. Svo eftir fjögurra tíma svefn hringdi vekjarinn. Ég brölti fram og hellti uppá kaffi. Sverrir Jakobsson, Raggi Kristins, Óli Jó og pabbi tíndust inn einn af öðrum.
Heimsmeistarar Frakka voru þegar búnir að fokka upp mótinu með smánarlegri frammistöðu. Ég hafði haldið með þeim og íhugaði alvarlega að dusta rykið af gömlu Argentínu-dálæti. Argentína hafði mætt til leiks með sigurstranglegt lið. Batistuta og Crespo voru einhverjir öflugustu framherjarnir í heiminum og Ariel Ortega virtist vera að ná vopnum sínum á ný í argentísku deildinni eftir frekar misheppnaðan feril í Evrópu. Péle spáði Argentínu góðu gengi en að Brasilía ætti ekki séns (það hefði reyndar átt að hringja viðvörunarbjöllum).
En Bielsa þjálfari vildi ekki leika með Batistuta og Crespo saman frammi. Liðið var leiðinlegt og varfærið. Lét sér nægja 1:0 sigur á Nígeríu í fyrsta leik og tókst svo að tapa fyrir Englendingum í þeim næsta. Hvílík martröð! Ég sem hafði hlakkað til að sjá Tjallana hafna á botninum í dauðariðlinum!
Fyrir lokaumferðina var Nígería án stiga og úr leik. Argentína með þrjú stig, en England og Svíþjóð fjögur. Argentína þyrfti því bara að vinna – helst ekki nema með einu marki – og þá mætti gæla við að Nígeríumennirnir ynnu Englendinga með sama mun eða meira og Argentína færi áfram sem sigurvegari og Svíar sem lið númer tvö.
Helvítið hann Lars Lagerbäck var ekki á því. (Ég sé reyndar að á FIFA-vefnum er Tommy Söderberg er einn skráður þjálfari sænska liðsins í leiknum, kannski skráningarkerfið þeirra geri ekki ráð fyrir möguleikanum á tveimur stjórum?) Svíar pökkuðu í vörn og Argentínumennirnir voru of hugmyndasnauðir til að brjóta niður varnarmúrinn. Þeir voru orðnir pirraðir og strax undir lok fyrri hálfleiks tókst Claudio Caniggia að verða sér út um beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk af varamannabekknum. Hvernig í ósköpunum er það hægt?
Anders Svensson skoraði beint úr aukaspyrnu eftir klukkutíma, í einu af fáum skiptum sem Svíar fóru framyfir miðju. Tíu mínútum síðar var Batistuta tekinn útaf í sínum síðasta landsleik og Crespo settur inná. Meira að segja með bakið uppað veggnum datt þjálfaranum ekki í hug að spila með þá báða. Crespo náði að pota inn marki þegar tvær mínútur voru eftir en það var of lítið og of seint. Englendingar náðu jafntefli í sínum leik og Argentína fór heim eftir riðlakeppnina ásamt Frökkum og Portúgölum.
Það voru Svíar sem unnu riðilinn og virtust komnir með frímiða í undanúrslitin. En Senegal reyndist ofjarl í næstu umferði og það voru svo Tyrkir sem flutu í undanúrslitin gegn Brasilíu. En þá var mótið líka komið í tómt rugl. Suður-Kórea búið að vinna bæði Ítali og Spánverja með dyggri aðstoð dómaranna. Brasilía varð heimsmeistari án fyrirhafnar, en það mátti svo sem heita ljóst eftir spádóm Péle
(Mark Svíþjóðar: Anders Svensson. Mark Argentínu: Hernán Crespo)