12. júní 1992. Grótta 2 : Skallagrímur 1
Evrópumótið í knattspyrnu 1992 fór fram í Svíþjóð. Meðal þátttökuliða var Samveldi sjálfstæðra ríkja, skammvinnt millistig sem var við lýði um skamma stund meðan verið var að skipta upp Sovétríkjunum. Aðeins 25 áhorfendur fylgdu liðinu til Svíþjóðar. Í ringulreiðinni eftir hrun Sovétríkjanna var skemmtiferð yfir Eystrasaltið ekki nema á færi fáeinna milljarðamæringa eða knattspyrnuforkólfa í boði UEFA. (Svo eru menn hissa á að núverandi stjórnvöld hafi talsverðan stuðning heima fyrir.)
Samveldið lék sinn fyrsta leik gegn Þjóðverjum. Úrslitin voru jafntefli, 1:1 og ég að sjálfsögðu límdur við skjáinn. Fyrr um daginn hafði ég svekkt mig á að sjá Hollendinga vinna 1:0 sigur á mínum mönnum, Skotum. Fyrri leikurinn var klukkan þrjú og sá seinni klukkan sex. Það var því tilvalið að bregða sér af bæ og horfa á meiri fótbolta um kvöldið.
Ég er Vesturbæingur og bjó í Frostaskjólinu mestöll mín uppvaxtarár. Seltjarnarnesið var því í röltfæri og þótt Grótta þætti sjaldnast merkilegasta liðið á að horfa, þá er fótbolti alltaf fótbolti. Kvöldgöngutúrar út á Nes lágu oft framhjá Gróttuvellinum á Valhúsahæð og sjálfsagt að staldra við ef leikur var í gangi.
Sumarið 1992 var hins vegar æsilegt hjá Gróttumönnum. Seltirningar höfðu farið upp úr fjórðu deildinni árið áður, með gamla KR-inginn Sæbjörn Guðmundsson sem spilandi þjálfara. Auk hans voru nokkrir aðrir með reynslu úr efstu deild. Kunnastur var Stefán Jóhannsson markvörður sem gekk til liðs við Gróttuna á miðju sumri. Fótboltaáhugamenn staðnæmdust þó helst við ungan framherja sem virtist skora að vild – Kristján Brooks.
Kristján skoraði fimmtán mörk í fimmtán leikjum þetta sumarið. Það dugði honum þó aðeins fyrir bronsskónum í deildinni. Bjarki Pétursson varð markakóngur og markamaskínan Valdimar K. Sigurðsson úr Skallagrími var annar. Í fjórða sætinu var Sauðkrækingurinn Sverrir Sverrisson og gamli Víkingurinn Goran Micic var skammt á eftir, en hann lék þetta sumar með Þrótti Neskaupstað. Pétur Pétursson náði ekki nema sjö mörkum í leikjunum sínum þrettán. Ætli þriðja deildin hafi fyrr eða síðar haft annað eins safn af kanónum?
Goran Micic kom Norðfirðingum upp í næstefstu deild. Tindastóll hafði yfirburði en það voru Þróttur og Grótta sem börðust blóðugri baráttu um hit sætið. Grótta tapaði tveimur síðustu leikjum sínum: á Sauðárkróki og heima gegn Þrótti í hreinum úrslitaleik þar sem jafntefli hefði dugað. Næstu vikurnar gekk svo á með kærumálum fyrir öllum mögulegum dómstólum vegna meintra ólöglegra leikmanna bæði Þróttar og Gróttu.
En um þá dramatík var ég grunlaus þetta júníkvöld á Valhúsahæðinni. Ég var mættur til að sjá Kristján Brooks, sem flestir töldu bara tímaspursmál hvenær myndi ganga til liðs við eitt af stóru liðunum í fyrstu deildinni. Og Brooks brást ekki. Hann skoraði tvisvar. Andstæðingarnir voru Skallagrímsmenn úr Borgarnesi. Þeim tókst ekki að skora, en einn heimamanna tók af þeim ómakið með sjálfsmarki. Internetið er þögult sem gröfin um hver það hafi verið, en með sjálfsmarkakónginn Sæbjörn inni á vellinum er ekki erfitt að giska.
(Mörk Gróttu: Kristján Brooks 2. Mark Skallagríms: sjálfsmark)