Annasamur dagur hjá fjölskyldunni að Mánagötu (sem þó hefst ekki við á Mánagötunni sem stendur).
Steinunn vaknaði snemma og fór á norrænan MS-fund. Seinni partinn lenti hún svo í viðtali við Stöð 2 um MS og barneignir. Viðtalið var sýnt í kvöldfréttunum áðan og mér sýndist það bara koma ágætlega út.
Sjálfur fór ég á ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar síðdegis, sem einn af fulltrúum SHA. Fín ráðstefna, þótt söguskýringar Þorsteins Pálssonar væru sérkennilegar. Kannski meira um það síðar.
Stalst af ráðstefnunni miðri til að horfa á FRAM og íA leika í Laugardalnum. FRAMarar voru ekki að leika sinn besta leik og máttu þakka fyrir jafnteflið. Fallbaráttan virðist ekki ætla að verða hlutskipti okkar í ár. Þróttarar þurfa hins vegar að taka sig á hið fyrsta ef ekki á illa að fara hjá þeim. FH mun ekki tapa leik í sumar.
Ólína var í heimsókn hjá ömmu sinni meðan á þessu stóð. Hún svaf að mestu, milli þess sem hún gúffaði í sig hverjum pelanum á fætur öðrum. Barnið er botnlaust.
Á kvöld hittir Steinunn Skandinavana í kvöldmat. Ég húki heima. Sé að sjónvarpsdagskráin er döpur. Það er greinilega kominn júní…
# # # # # # # # # # # # #
Allir bloggarar virðast eiga að tjá sig um þáttinn með Sylvíu Nótt á Skjá einum.
Mér finnst hann þrælfínn.
Þar hafiði það…
# # # # # # # # # # # # #
Þessa dagana hlusta ég talsvert á BBC World Service í útvarpinu í bílnum.
Á dag var t.d. forvitnileg frétt um dauðarokks-æði í Marokkó. Þungarokk með arabísku bíti er bara helv. flott, miðað við þessa stuttu kynningu.
Fyrr í vikunni var svo frétt um fatlaðan íþróttamann sem vill fá að keppa við ófatlaða. Málið er að hann er með gervifót og slík „hjálpartæki“ eru ekki leyfð hjá ófötluðum. Líklega fær maðurinn keppnisrétt – en hvað gerist ef honum tekst að vinna þá ófötluðu?
Er það ekki dálítið pómó þegar cyborgarnir (fatlaða fólkið) eru farnir að skara fram úr hinum – þeim „eðlilegu“?