Fimm umferðum lokið af átján á Íslandsmótinu. Verð að viðurkenna að staðan núna kemur mér töluvert á óvart.
Valur og FH eru stungin af og það maklega. FH-ingarnir held ég þó að séu mun sterkara lið og fari langt með að klára mótið á Hlíðarenda í vikunni.
Á hinum endanum sé ég ekki hvernig Þróttararnir eiga að ná að bjarga sér. Nálega öll önnur lið – fyrir utan 2-3 efstu gætu dregist inn í fallbaráttuna.
KR-ingarnir byrja ekki eins vel og þeir vonuðust til. Það er auðvitað svekkjandi fyrir þá, en orðbragðið og móðursýkin á spjallborðinu þeirra er gjörsamlega út úr öllu korti. Hvernig voga menn sér að skrifa svona um leikmenn, þjálfara og aðstandendur félagsins sem þeir segjast styðja?
Við FRAMarar höfum átt okkar súru stundir á undanförnum árum og þá hafa stundum svekktir stuðningsmenn látið eitt og annað flakka, en ekkert í líkingu við þetta. Skamm! Skamm!
# # # # # # # # # # # # #
Horfðum á kjánalega mynd um demantaþjófa með Woody Harrelson og Pierce Brosnam í kvöld. Það var eiginlega meira en vídeótækið í Frostaskjólinu þoldi – líklega var það þó ekki kvikmyndaskemmur tækisins sem því réði, heldur sú staðreynd að tækið sjálft er skran.
Vídeótæki þetta er – ásamt einhverjum stöðumæli sem komst í fréttirnar á sínum tíma – eina fórnarlamb 2000-vandans á Íslandi sem vitað er um. Eftir að áramótim 2000 gengu í garð, dó timer-rec fídusinn á tækinu. Merkilegt!
Vandi tækisins nú felst í því að í hvert sinn sem stór hluti myndflatarins er skjannahvítur, fokkast hljóðið upp og eitthvert leiðindasarg tekur yfir. Með öðrum orðum: spennumyndir sem gerast í dimmum öngstrætum eru tækinu þóknanlegar en ekki þær sem eiga sér stað á sólríkum sandströndum.
# # # # # # # # # # # # #
Las í Austurglugganum að hópur Reyðfirðinga vill stofna menntaskóla á Reyðarfirði (sem fengi væntanlega skammstöfunina MR-II). Helst var að skilja á blaðinu að búið væri að stofna um þetta samtök og verið væri að lobbýa fyrir þessu.
Þótt hugmyndin sé klædd í þann búning að ætlunin sé að stofna nýjan skóla – þá vita auðvitað allir hvað hún gengur í raun og veru út á: að færa Verkmenntaskóla Austurlands frá Neskaupstað til Reyðarfjarðar.
Jafnvel þótt íbúum Fjarðarbyggðar fjölgaði í samræmi við bjartsýnustu spár, myndi ALDREI koma til greina að starfrækja tvo framhaldsskóla í jafnfámennu sveitarfélagi. Snæfellingar áttu meira að segja í basli með að fá framhaldsskóla með vísun til þess að stutt væri til Akraness og hart er deilt um framhaldsskóla í utanverðum Eyjafirði.
Með öðrum orðum: Reyðfirðingar ásælast framhaldsskólann frá Norðfirðingum. Og hver veit – kannski fá þeir hann? E.t.v. er framhaldsskólinn betur settur í Reyðarfirði, sem er miðsvæðis, en í Neskaupstað sem er að verða jaðarbyggð?
Sjálfur hefði ég þó talið vænlegra fyrir íbúa í Fjarðabyggð að nota upptaktinn í kringum álversframkvæmdirnar til að herja á um að ný þjónusta væri flutt á svæðið, en að einstakir bæjarkjarnar fari að bítast um það sem fyrir er…