Ég verð nú að taka undir með kennaranum sem hefur verið að pönkast á Námsmatsstofnun vegna samræmda prófsins í samfélagsfræði. Það er EKKI hægt að taka þingkosningar sem dæmi um beint lýðræði samanborið við óbeint lýðræði. Þingkosningar eru einmitt kjarninn í óbeinu fulltrúalýðræði.
Á hinn bóginn hef ég alltaf átt erfitt með að botna í æsingnum sem fylgja vill þessum samræmdu prófum á ári hverju. Þegar ég var að klára gaggó, voru samræmdu prófin bara tvö – stærðfræði og íslenska. Þau þóttu bæði léttvæg, enda lögðu menn meira upp úr íslensku- og stærðfræðiprófunum sem skólinn sjálfur lagði fyrir. Menn höfðu það fyrir satt að framhaldsskólarnir litu á skólaprófin en ekki þau samræmdu, enda var t.d. miklu meiri algebra í Hagaskólaprófinu.
Ef ég man rétt nenntu börnin varla að detta í það eftir samræmdu prófin – og þá er nú mikið sagt.
# # # # # # # # # # # # #
Aftan á Mogganum er vitnað í norskan hagfræðing sem varar við því að íslenska bankakerfið geti hrunið eins og spilaborg. Að sjálfsögðu svörum við Íslendingar honum með því að þetta sé bara öfund gömlu herraþjóðanna í garð íslenska efnahagsævintýrisins.
Þó að norska bankakerfið hafi farið á hausinn á einu bretti – beint í kjölfarið á gríðarlegri útrás og fjárfestingum út um hvippinn og hvappinn, þá er það algjörlega ósambærilegt mál.
Og já, ég spái því líka að OZ.COM eigi eftir að koma sterkt inn á seinni parti ársins og að eigendur í Stók muni fá feitar arðgreiðslur innan tíðar…
# # # # # # # # # # # # #
Fréttirnar af súrmjólkurslettunum á Hótel Esju eru kunnuglegar.
Fyrir nokkrum árum köstuðu anarkistar eggi með súrmjólk sem blandað hafði verið saman við rauðan matarlit í tengslum við mótmæli við bandaríska sendiráðið. Fulltrúar löggunnar ruku í fréttir og ræddu um hörmulegt virðingarleysi fyrir eignum annarra og stórtjóni af völdum málningarsletta. – Þegar hið sanna um efnainnihaldið kom í ljós, varð löggan grautfúl.
Að þessu sinni voru fyrstu fréttirnar af aðgerðum virkjanaandstæðinganna á þá leið að grænni málningu hefði verið slett á menn, konur og börn á hótelinu. Fréttastofurnar og löggan spenntust upp: loksins almennilegur hasar.
Þegar í ljós kom að um súrmjólk var að ræða, urðu svo allir fúlir. Aumingja myndatökumaðurinn frá Sjónvarpinu sem átti að mynda vettvang glæpsins virðist bara hafa náð mynd af einum dropa í teppinu, sem ræstitæknar hótelsins gleymdu að moppa upp. – Til að geta haldið aðeins lengur í hneykslunina lét löggan í það skína að tölvubúnaður kynni að hafa skemmst. …uh! Nei – meira að segja verstu drasltölvur úr BT skemmast ekki við að fá súrmjólkurslettu á skjáinn.
Örvæntingarfyllsta tilraunin til að reyna að búa a.m.k. smáskandal úr málinu kom þó frá ráðherranum sem spáði hruni ferðamannaþjónustunnar:
„Elskan – eigum við að skella okkur til Íslands í sumarfríinu?“
„Nei, ertu galinn! Þar sletta menn súrmjólk á saklaust fólk! Lestu ekki blöðin? Þetta var í öllum heimsfréttunum!“
„Ókey, þá er það bara Kanarý eins og venjulega…“
– Hitt er annað mál að sjálfur myndi ég ekki taka þátt í því að sletta súrmjólk á einhver möppudýr úr áliðnaðinum. Ekki vegna þess að ég óttist að skemma tölvur eða að blettir komi á dýr jakkaföt. Og heldur ekki vegna þess að ég óttist hrun ferðamannaiðnaðarins. Ég sé hins vegar ekki hvernig svona aðgerð á að gagnast málstaðnum.
# # # # # # # # # # # # #
Á ég að nenna á leik Vals og FH í kvöld? Það er alveg á mörkunum. Þaðp verða eflaust milljón manns á vellinum og umferðaröngþveiti. Spurning hvort ég bjóði mér ekki frekar í heimsókn í seinni hálfleikinn hjá einhverjum sem er með Sýn.
# # # # # # # # # # # # #
Guðmundur írni á leið í sendiherrann. Þá verður ísgeir Friðgeirsson væntanlega þingmaður. Maður verður eiginlega að taka ofan fyrir flokki eins og Samfylkingunni, ef þingflokkurinn getur rúmar Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar en ísgeir Friðgeirsson hins vegar – mann sem vinnur fyrir sér sem fjölmiðlafulltrúi og ráðgjafi hjá stærstu kapítalistum landsins.
Annars kynntist ég ísgeiri nokkuð fyrir 6-7 árum. Þá vorum við Magnús Helgason (Maggi finnski) ráðnir í það verk að sjá um heimildaöflun fyrir þáttaröð um sögu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þættirnir voru alls þrír og sýndir á Stöð 2. Einhverjir árekstrar komu upp milli ísgeirs og framleiðslufyrirtækisins og því lauk þannig að öðrum var falið ljúka við endanlega gerð þáttanna. Minnir að það hafi verið Viðar Víkingsson.
Mín vinna í verkefninu fjallaði einkum um frumbýlingsár SíS og sögulegan aðdraganda, sem tekið var fyrir í fyrsta þættinum. Sú saga var ágætlega skráð og verkefnið því ekki flókið. Mig minnir að textinn frá mér hafi mikið til fengið að halda sér í hinni endanlegu gerð.
Maggi sá að mestu um annan þáttinn, sem fjallaði um gullöldina hjá SíS. Ég hjálpaði honum eitthvað með það, en ekki mikið. Það var þó að mínu mati skemmtilegasta efnið í þessari sögu allri.
ísgeir hafði ekkert sérstaklega mikinn áhuga á þessari sögu. Hans svið var fall Sambandsins og öll dramatíkin í kringum þau mál. Mér skilst að sá hluti sé í dag notaður í samtímasögunámskeiðinu í sagnfræðiskor.
Eftir þessi kynni af ísgeiri get ég vottað að hann er greindur maður, harðduglegur og góður í viðkynningu. – En vinstrimaður er hann ekki.