Guði sér lof fyrir gormadýnur
Fokk, ég er greinilega ekki lengur átján ára. Tvær nætur í röð á örþunnum dýnuskjatta með grjóthart Snæfellsnesið að bora sér leið upp í mjóhrygginn á mér er einfaldlega of mikið, a.m.k. kom ég örþreyttur úr annars fínni útilegu. Reyndar er ég ekki viss um að þetta hafi bara með það að gera að maður sé orðinn miðaldra, því nágrannar okkar í næsta tjaldi á Grundarfirði hafa varla verið nema svona 15 ára, en skulfu þó eins og hríslur og voru almennt grátt leiknir. Þessir pjakkar voru svo vesældarlegir að ég gekk út frá því sem vísu að þeir væru miðstéttargrísir úr Grafarvoginum í síðbúnum skátafílíng. Síðar kom í ljós að þeir voru úr Þorlákshöfn og komnir vestur „til að sleppa úr slorinu og ná sér í stelpur“. – Eitthvað segir mér að þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum…
Á Gufuskálum kom skyldustopp til að skoða fiskbyrgi og svala þannig hinni óskiljanlegu grjóthleðslufíkn Steinunnar. Þessi áfergja í að skoða grjót sem staflað hefur verið upp er afar sérstök og núna vill stelpan ólm halda til írlands að skoða meira grjót eftir að Guðrún og Elvar lánuðu henni bók um málið í gær. – Ætli við látum ekki duga svona fyrsta kastið að skoða fjárréttina miklu á Vatnsleysuströndinni.
* * *
Á Fréttablaðinu í dag er fjallað um þá frábæru Færeysku hljómsveit Clickhaze. Allir góðir menn ættu að kaupa sér þann disk. Hann er afbragð eins og annað sem færeyskt er.
* * *
Fótboltinn er farinn af stað í Evrópu, sem er líklega eins gott því Framarar eru á hraðferð niður um deild eftir afleitan leik gegn Fylki í gær.
Á Englandi tapaði Luton 2:3 á heimavelli og voru víst hrikalega vondir. Ég vona að það verði ekki ströggl í deildinni í ár, við megum alls ekki við því.
Fyrir norðan landamærin tókst Hearts hins vegar að vinna Hibs 5:1 í nágrannaslagnum. Mikið vildi ég hafa verið á bar í grennd við völlinn eftir þann sigur… Það var víst gamli Luton-maðurinn sá franski Valois sem var allt í öllu á miðjunni í leiknum. Hearts í Evrópukeppnina, ekkert minna!