Ég hef á tilfinningunni að á fréttastofum dagblaðanna og ljósvakamiðlanna hangi uppi minnisblað, þar sem fram kemur að fréttamönnum beri – ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði – að flytja fréttir af því að íslenskir fuglar séu sömu skepnur og erlent fiðurfé, sem þýði að þeir geti fengið fuglaflensu. Á kjölfarið á að hringja í Harald Briem sem segir að úmflýjanlegt sé að inflúensu-faraldur muni breiðast út um heiminn. Á lok fréttar skal svo sagt frá Spænsku veikinni sem drap sennilega u.þ.b. 50 milljónir á átján mánaða tímabili frá 1918.
Þessi eilífðarsamanburður á mögulegum flensufaröldrum og Spænsku veikinni er orðinn svo fastur liður að margir eru farnir að líta á það sem náttúrulögmál að farsótt sem drepi 50 milljónir hljóti að ríða yfir heimsbyggðina – þetta sé bara spurning um tíma.
Auðvitað fer dánatíðni í farsóttum ekki eftir fyrirframúthlutuðum kvótum fyrir fjölda fórarlamba. Aðstæður í þeim samfélögum sem sjúkdómurinn herjar á ráða einna mestu um hvort hann leggur marga eða fáa að velli. Sumir ganga svo langt að setja eðli sjúkdómanna sjálfra í annað sæti þegar lagt er mat á fjölda fallinna. Besta dæmið um þetta er dílasóttarfaraldur í Rússlandi 1920, sem drap meira en milljón manns. Sú farsótt hefði tæplega valdið miklu mannfalli á friðartímum – þess vegna hafa þeir sem vilja finna sem hæsta tölu fórnarlamba kommúnismanns kosið að reikna þessa milljón sem dó úr dílasóttinni á ábyrgð Leníns, með þeim rökum að hann hafi skapað þær aðstæður sem auðvelduðu faraldrinum að brjótast út.
Persónulega finnst mér slíkir útreikningar ekki ýta undir frjóa umræðu – ekki frekar en vangaveltur sem maður sér á netinu um hvort Bush beri ábyrgð á dauðsföllunum í New Orleans, vegna einhvers sem hann hefði getað gert – en gerði ekki.
Eftir stendur að samfélagslegar aðstæður ráða gríðarmiklu um þann skaða sem farsóttir geta valdið. Spænska veikin reið yfir veröldina þegar Evrópa var í rúst og efnahagskerfum ríkustu landa heims hafði verið breytt í þá veru að standa undir stríðsrekstri. Heilbrigðiskerfið tók sömuleiðis mið af stríðsrekstrinum og alþjóðlegar stofnanir voru veikar eða ekki fyrir hendi.
Skipta þessar aðstæður engu máli þegar kemur að því að skýra hvers vegna 50 milljónir manna létust í Spænsku veikinni? Auðvitað! Þótt faraldur af þessu tagi hefði alltaf drepið marga, virðist eðlilegt að reikna með því að mannfallið hefði verið annað og mun minna bæði tíu árum fyrr og síðar.
Þetta vita þeir sérfræðingar sem koma í fjölmiðla og hrella okkur á fregnum af fuglaflensu – en þeir láta satt kyrrt liggja. Hvers vegna? Jú, það þjónar heilbrigðispólitískum markmiðum að spyrða saman hættuna af kvefuðum kjúklingum í Víetnam og hryllingsmyndina frá 1918 og 1919.