Á gær fórum við Steinunn út að borða á Tveimur fiskum í gömlu Hafnarbúðunum. Ekki var nú mannmergðinni fyrir að fara. Setið við eitt borð fyrir utan okkar.
Tveir fiskar eru ákaflega notalegur staður og verðið ásættanlegt. Þarna borða menn sjávarfang en ekki kjöt. Matseðillinn fór ansi nærri því að segja rollu- og beljuætum að drulla sér út.
Ég pantaði mér höfrungasteik, enda aldrei étið þá skepnu fyrr. Ætli höfrungar séu mikið að þvælast í net – eða er í raun einhver höfrungaskytta sem veiðir dýrin og lætur svo heita að hafi fangað þau í net fyrir slysni?
Þetta reyndist úrvalskjöt. Minnti á einhvern skringilegan hátt á blöndu af hreindýri og hnýsu. Enginn greinilegur lýsiskeimur, en þó augljóst að um sjávarskepnu væri að ræða.
Drukkum nýsjálenskt hvítvín með. Það var stórgott. Ætla að svipast um eftir því í Ríkinu.
# # # # # # # # # # # # #
Á nótt var ruslatunnu Minjasafnsins stolið. Þetta var engin smátunna, heldur lítill gámur. Merkilegt hverju menn nenna að hnupla.
# # # # # # # # # # # # #
Þegar við ætluðum að ganga til náða í gærkvöldi kveiktum við fyrir slysni á Sirkus og duttum niður í mynd um hvað Karl Rove væri mikill þrjótur. Ekki fannst mér nú margt bitastætt í henni. Grátkaflinn um unga hermanninn sem féll í írak var líka furðulegur og ekki í neinum tengslum við annað efni myndarinnar.
Ég hef alltaf átt bágt með að skilja hvernig hægt er að samtvinna dýrkun á hermennsku, herþjónustu og föðurlandsást annars vegar – en væla og skæla í hinu orðinu yfir því þegar þessi sama hermennska leiðir til dauða í styrjöldum. En kannski er þetta eitthvað sem kvikmyndagerðarmennirnir telja sig þurfa að láta fylgja með í myndum sínum til að vera ekki úthrópaðir sem svikarar við ættjörðina?