Ergelsi og pirringur
Fokkíng mánudagar! Einhverra hluta vegna telja yfirmenn mínir að það sé sniðugt að stefna öllum starfsmönnum kynningardeildarinnar saman á fund kl. 10 á hverjum einasta mánudegi.Þar hef ég sjaldan mikið til málana að leggja, enda snúast flest málin um hluti sem tengjast mér ekki neitt.
Nema hvað, þessir fundir dragast yfirleitt upp í einn og hálfan klukkutíma. Ef reiknað er með tímanum sem fer í að koma sér úr Elliðaárdalnum á fundinn og til baka og röskunina sem þessu öllu fylgir má segja að þetta fundastúss taki allan tímann fram að hádegi, í það minnsta kem ég aldrei neinu í verk fyrr en eftir hádegi á mánudögum. Þetta er gjörsamlega óþolandi þar sem með því eru 10% vinnuvikunar farin í vaskinn. – Ég er gjörsamlega að eipa yfir þessu.
Fundir eru uppfinning andskotans.
* * *
Póstlistar eru líka komnir frá þeim vonda. Núna hefur einhver vitleysingurinn skráð mig á lista vinafélags óperunnar. Óperunnar??? Ég sem fór síðast á slíka sýningu ásamt Melaskólanum á Litla sótarann fyrir óralöngu. Hvers á ég að gjalda?
* * *
Á dag er ég ekki búinn að koma neinu í verk í vinnunni, en hef þess í stað náð að ýta á undan mér þremur verkefnum. Tvö þeirra krefjast þess að ég tali við erkifífl úti í bæ sem ég nenni ómögulega að skipta við. – Hvers vegna er mér ekki boðin vinna við að drekka bjór, lesa reyfara, hanga á netinu, fylgjast með fótbolta og klappa Steinunni? Væri það virkilega til of mikils mælst? Ég væri jafnvel til umræðu að taka á mig nokkra kjaraskerðingu gegn því að fá sveigjanlegan vinnutíma…