Berrassaðar stelpur…
Rafiðnadeildin frá Iðnskólanum í Hafnarfirði kom á safnið í dag. Einn kennarinn þar á bænum er fastagestur hjá okkur og hefur mætt með strákahópa (engar stelpur í rafiðnunum) í meira en áratug. Ég er orðinn nokkuð rútíneraður í að taka á móti svona hópum, sem yfirleitt samanstanda af 17-19 ára guttum sem fæstir fíla það mikið að vera í safnaheimsókn.
Til að díla við það bregð ég mér í allt annað hlutverk en venjulega. Ég tala ekkert um Einar Ben og fossaævintýr hans, Rafha-eldavélar eða þátt Jóns Þorlákssonar í virkjun Sogsins. Þess í stað gerist ég tæknilegur, tala um verkfæri og tól – gríp kæruleysislega í suma gripina og tala eins og ég hafi ekki gert annað í 30 ár en að bræða tin í háspennumúffur oní skurði í skítakulda. Jafnframt tala ég um þessa hluti eins og að strákarnir eigi að þekkja þetta allt saman líka – hvað það sé mikill munur að vera laus við fokkíng PCB-viðbjóðinn úr spennaolíunni og hvað nýi bilanaleitarbúnaðurinn hjálpi til í jarðlínunni. – Þeir kóa með og kinka kolli á réttum stöðum og ljóma af áhuga.
Raunar minna þessar heimsóknir mig á samskipti mín við bifvélavirkja. Ég veit ekkert um bíla, en í hvert sinn sem ég lendi í klónum á þeim þá dregst ég á óskiljanlegan hátt inn í macho-umræður um gallaða bremsubarka og hvort þessi tegundin eða hin sé léttari í viðhaldi eða hvort betra sé að spreyja aða pensla yfir ryðblettina á húddinu…
Ég er sem sagt laumu-bifvélavirki. Það eina sem vantar er smurningsgalli og bílanausta-plakat með berrössuðum stelpum.
* * *
Á vefriti ungkrata, Póltík, birtist í gær afskaplega kostulegur greinarstúfur eftir Hinrik Má ísgeirsson. Sá bar yfirskriftina: „Sagan endurtekur sig“.
Þar eru lesendur fræddir um ýmislegt sem þeir vissu ekki áður. T.d. að Thomeas (svo!) Edison hafi fundið upp glólampann árið 1879 og við það hafi hlutabréf í gasstöðvum hríðfallið. – Lesendur eru hvattir til að telja sagnfræðilegu rangfærslurnar í setningunni. Ég tel a.m.k. þrjár!
Á kjölfarið hæðist höfundur að Breta nokkrum sem taldi það fráleitt að rafmagn yrði notað til að lýsa upp einkaheimili. Erfitt er að sjá hvað er svona hlægilegt við þá niðurstöðu, einkum í ljósi þess að Edison sjálfur lýsti því yfir að rafmagn myndi yrði ekki ljósgjafi nema í skrifstofubyggingum og háhýsum miðborga, en að gasstöðvar myndu enn sem fyrr halda áfram að lýsa upp einkaheimili. – Líklega telur Hinrik Már að Edison hafi líka verið fábjáni.
Því næst víkur höfundur greinarinnar að sögu flugsins og tiltekur nokkur dæmi um menn sem töldu að útilokað væri að fljúga flugvélum.
Eftir þennan býsna langa inngang kemur svo niðurstaðan: alltaf eru til menn sem hafa vantrú á nýjungum. – Aha! Nú erum við loksins að komast eitthvert.
Og áfram heldur Hinrik Már og upplýsir að til sé maður sem hafi verið á móti litasjónvarpi og sé nú á móti Evrópusambandinu. Sá maður sé Ragnar Arnalds.
Hóhó – maður getur hreinlega gert sér í hugarlund hvað Hinrik Már hefur verið stoltur af sjálfum sér eftir þessa snjöllu leiðingu – hanka helvítið hann Ragnar á að hafa verið á móti litasjónvarpinu.
En því miður fyrir litla kratastrákinn, þá er hann sjálfur fíflið í sögunni. Þingmaðurinn af norð-vesturlandi sem „var á móti litasjónvarpi“ var ekki Ragnar Arnalds heldur Páll Pétursson. Og úr því að verið er að rifja upp þessa gömlu og úrsérgengnu tuggu um litasjónvarpið og Palla Pé, þá er rétt að hafa það á hreinu að Páll setti sig ekki á móti litasjónvarpi sem tækni eða taldi að það væri á einhvern hátt óæskilegt. Nei, Páll Pétursson gagnrýndi þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að forgangsraða því ofar í framkvæmdaáætlun sinni að hefja litaútsendingar en að stækka dreifikerfi sjónvarpsins þannig að það næði til alls landsins.
Rök Páls voru þau að úr því að Ríkisútvarpið væri í eigu þjóðarinnar þá ætti það að vera forgangsmál að láta útsendingar þess ná til þjóðarinnar. Er það mjög ósanngjörn krafa?
Ef Páll Pétursson hefði gagnrýnt það að á sama tíma og dreifikerfið var í lamasessi væri verið að kaupa dýrar knattspyrnuútsendingar, þá hefði Hinrik Már væntanlega komist að þeirri niðurstöðu að Palli Pé væri á móti enska boltanum.
Á einni undirsíðu vefritsins Pólitíkur má finna upplýsingar um ritstjórnarmeðlimi. Þar svarar Hinrik Már, aðspurður um ritstörf sín: „Eitthvað ofan á brauð“. Ekki veit ég hvaða viðbit þessi grein hefur átt að teljast. Kannski vélstrokkað tilberasmjör?
Jamm.