Líf mitt í símskeytastíl…
Úff… þá er best að ryðja út úr sér atburðum síðustu daga úr því að ég hef ekki komist í að blogga í tæpa viku. Þetta verður hraðsoðið…
Ferðin mikla
Fór á Hornafjörð á miðvikudag og sneri aftur á föstudag. Þar var ég staddur á farskóla safnmanna, sem var hreinasta snilld. Hornafjörður er skemmtilegur bær og ekki var heldur leiðinlegt að skjótast í Skaftafell – líklega merkilegasta stað á Íslandi. Athygli vakti að Björn Bjarnason tók þátt í dagskránni alla þrjá dagana, sem er afar óvenjulegt fyrir stjórnmálamann. Yfirleitt stinga þeir inn nefinu í klukkutíma og eru svo roknir. – Stór plús í kladdann hjá Birni!
Farsímahringingar dauðans
Á farskólanum sannaðist það enn og aftur, að fólk á ekki að vera með flóknar og sniðugar GSM-hringingar. Hvað er að því að eiga síma sem hringir: „ring-ring“ eða „bánk-bánk“? Það er kannski voða gaman að vera með sovéska þjóðsönginn, Gleðibankann eða Like a Virgin með Maddonnu sem hringingu í góðra vina hóp, en glansinn fer nokkuð af því þegar skroppið er fram í kaffi meðan á fyrirlestri stendur – síminn skilinn eftir í fundarsalnum og svo hringir hann stanslaust í fimm mínútur meðan allir fundargestir eru að verða brjálaðir.
Splatter í Regnboganum
Á laugardagskvöldið stóðum við Steinunn frammi fyrir því að velja á milli þess að gerast sófakartöflur yfir sjónvarpsdagskrá frá helvíti (Spy Hard-viðbjóður á RÚV) eða vera menningarleg. Tókum seinni kostinn og fórum á „Húsfélagið“, gamanmynd á spænsku kvikmyndahátíðinni. Hún var fín, en kolsvört.
Á Regnboganum hittum við Kollu (sem virðist vera hætt að blogga) og Elías Davíðsson (sem er nokkurs konar bloggari). Elías verður víst með fund í Norræna húsinu á miðvikudaginn.
Klám og subbuskapur
Lét loksins verða af því að kaupa Porno eftir Irvine Welsh. Hún stefnir í að bera nafn með rentu. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvort höfundurinn telur sig vera að afbyggja mýtur klámiðnaðarins eða hvort aðalkvenpersónan í bókinni byggist á blautum draumum hans frá unglingsárunum. Hallast fremur að því síðara.
Gleði og kátína
Hóhóhó… það var æðislegt að sjá Framara vinna FH 5:4 í fáheyrðum leik í gær. Hvenær ætli leikur hafi síðast farið 5:4 í efstu deild hér á landi? Nú er stefnan tekin á Akureyri á laugardaginn kemur. Þorbjörn Atli er snillingur!
Bakverkir og vöðvabólga
500 barmmerki búin til í gær. Það er of mikið í einu, hvenær ætlar mér að lærast þetta. Ef svo fer sem horfir munum við Palli ekki koma miklu öðru í verk næstu mánuðina en að þrykkja út barmmerkjum. Það vill þó til að við höfum aðgang að nægu ókeypis vinnuafli.
Mótsögn?
Það er enginn hörgull á persónuleikaprófum á netinu. Hjá Siggu bleiku má sjá niðurstöður hennar úr prófinu: „Which Secret Fetish are You?“. Niðurstaðan hennar var: „Exhibitionism“. Hvernig getur sýnisþörf verið leynilegur eiginleiki? Ég er ekki að skilja…
Lokaorð?
Jamm.