Þessar áleitnu spurningar… Snörl, hóst

Þessar áleitnu spurningar…

Snörl, hóst og hnerr! Hvers vegna er ég svona kvefaður? – Eða öllu heldur, úr því­ að ég var byrjaður að vera kvefaður á fimmtudaginn – hvers vegna fór ég þá á barinn? Og – úr því­ að kvefið ágerðist bara við það, hvers vegna fór ég þá í­ partýið heima hjá Huginn (eins og lesa má um á ótal bloggsí­ðum). Og í­ þriðja og sí­ðasta lagi – úr því­ að partýið og bjórþambið á 22 á eftir gerði ekkert annað en að auka á óhamingju mí­na og tryggðu að ég mátti vart mæla á UVG-fundinum á laugardaginn, hvers vegna í­ andskotanum drakk ég svona mikinn bjór í­ útskriftarboði Sveinafélags rafiðnaðarmanna sem haldið var hér á safninu í­ gærkvöld.

Nú hef ég aldrei þóst vera maður ósérhlí­finn – þvert á móti kveinka ég mér yfirleitt undan öllum flensum og kvefi. En þetta er algjört met! Ég er viss um að ég er kominn með hita og mun ekki komast í­ vinnuna á morgun!

Það verður hálf-álkulegt að hitta félaga Hrafnkel úr miðnefnd SHA á næsta fundi. Hann nauðaði þessi reiðinnar býsn í­ mér að „heilsast að Glasgow-sið“, sem er slangur yfir að berja saman hausum. Eftir nokkurra mí­nútna kvabb lét ég til leiðast og skallaði manninn hraustlega. Hann vankaðist og fékk örugglega dúndrandi hausverk í­ kjölfarið. Er ég orðinn bulla?

* * *

Það er búið að vera stórmerkilegt að fylgjast með framvindu mála í­ Venesúela undanfarna daga. Fyrst eftir að Chavez var hrakinn frá völdum, þá stukku allir í­slensku fjölmiðlarnir á kenningar hægripressunnar í­ BNA þess efnis að Chavez væri fylgislaus og að í­ raun væri það almenningur en ekki herinn sem hefði velt honum úr sessi. Þær skýringar virðast hafa verið skotnar í­ kaf – a.m.k. ef marka má fregnir af því­ að hann hafi komist aftur til valda og að herforingjarnir hafi hrokkið undan með skottið á milli lappanna.

* * *

Ég er enn ekki búinn að skila skattframtalinu mí­nu á netinu. Þar vefst aðallega fyrir mér að finna hvar ég get fært kostnað við húsaleigu á móti leigutekjum. Einhver góðhjörtuð sál sem les þetta mætti senda mér ábendingar í­ vinnuna (minjasafn@or.is).

* * *

Luton gerði bara jafntefli en Plymouth vann um helgina. Fyrir leikinn var Luton búið að vinna 12 leiki í­ röð. – Þetta þýðir að við vinnum ekki titilinn í­ ár, en förum upp út á annað sætið. Shit happens!

Verra gæti það þó verið. Ég gæti verið Wolves-maður eins og Palli. Úlfarnir eru lí­klega búnir að missa af því­ að komast beint upp og lenda í­ umspili. Það er fyndið að skí­taliðið WBA hafi skotið þeim ref fyrir rass.

* * *

Ég er lí­ka fúll yfir handboltanum. Hvernig er hægt að halda úrslitakeppni án Safamýrarstórveldisins? Framarar eru miklu betri en mörg þessara liða í­ úrslitakeppninni, en fyrstu umferðirnar reyndust dýrkeyptar.

* * *

Tengdapabbi var í­ bænum um helgina, í­ einhverri höfuðborgarferð starfsmannafélags Sí­ldarvinnslunnar. Ekki get ég þó sagt að ég hafi hitt hann nema í­ mýflugumynd og við skiptumst ekki á mörgum orðum. Hann er lí­tið gefinn fyrir að blaðra um allt og ekkert. Sennilega gæti ég lært margt af honum í­ þeim efnum.