Það er ekki hægt að halda úti bloggi eins lengi og raunin er með þessa síðu án þess að segja sömu brandara oftar en einu sinni. Ætla þess vegna að láta flakka kersknisögu sem ég er viss um að hefur birst áður.
Doug félagi minn í Edinborg, öðlingur og snillingur, er líklega frekar vinstrisinnaður á bandarískan mælikvarða. Dvölin í Skotlandi opnaði þó fyrir honum nýjar víddir í róttækni. Hann sá sjónvarpsþætti, las blöð og heyrði fréttir sem í BNA hefðu verið bundin við neðanjarðarútgáfur smáflokka. Þetta þótti honum heillandi – nokkurs konar forboðnir ávextir.
Einhverju sinni horfðum við á bíómynd í sjónvarpinu. Það var Reds með Warren Beatty í aðalhlutverki. Afaróvenjuleg mynd fyrir Hollywood, um sósíalistaleiðtoga snemma á öldinni í Bandaríkjunum. Persónan sem Beatty lék, hafði þá reglu að læsa aldrei inn til sín. Þess í stað hékk á hurðinni miði með áletruninni: It is open – Property is theft!
Þetta þótti Doug brjálæðislega svalt og talaði mikið um hversu töff væri að tileinka sér slíka lífssýn og hafa svona miða á hurðinni.
Síðar, þegar hann var kominn aftur til sinna heima og fékk eigin skrifstofu í framhaldsskólanum þar sem hann kenndi, lét hann drauminn rætast. Hann prentaði út stórt plakat þar sem stóð stórum stöfum (í lauslegri íslenskri þýðingu): „Hurðin er ólæst. Gangið í bæinn. Eign er glæpur.“
Neðst á plakatinu var hins vegar með smáu letri eftirfarandi „disclaimer“ (í lauslegri íslenskri þýðingu): „Vinsamlegast athugið þó að líklega verður hurðin í raun rammlæst í hvert sinn sem eigandi skrifstofunnar er fjarverandi. Allur stuldur úr skrifstofunni verður miskunarlaust tilkynntur til lögreglu og viðkomandi aðilar sóttir til saka. Það breytir því þó ekki að í prinsipinu ER eign glæpur.“
Þetta finnst mér svalasta plakat sem ég hef heyrt um.
Ójá.