Mannslát á Klapparstíg
Óskaplega er búið að vera sorglegt að fylgjast með máli Steins írmanns sem varð mannsbani á fimmtudagskvöldið. Ég kannast ágætlega við móður Steins og hef því reglulega fengið fregnir af þeirri hörmungasögu sem líf hans hefur verið undanfarin ár. Væntanlega munu fjölmiðlar á borð við DV rifja hana upp með reglulegu millibili næstu árin af þeirri einstöku smekkvísi sem þá einkennir.
Það virðist núna vera svo ótrúlega stutt síðan ég frétti af því að Steinn hefði verið útskrifaður af Sogni, þrátt fyrir að allir vissu að hann væri ekki heill. Fjölskylda hans varð miður sín, því hún óttaðist að einmitt eitthvað svona gæti gerst. Viljum við búa í samfélagi þar sem sérfræðingar freistast til að útskrifa menn of snemma af réttargeðdeildum til að spara í kerfinu? Mun þetta mannslát duga til að raunverulegar breytingar eigi sér stað, eða gleymist málið fljótt vegna þess að sá látni var líka ógæfumaður?
Maður verður hreinlega niðurdreginn af því að hugsa um þetta mál og þá sérstaklega vesalings fjölskylduna sem hefur mátt lifa í skugga þessa í mörg ár.
* * *
Fór í gær á 24 Hour Party People. Hún er hreinasta snilld. Klúður að hafa ekki náð henni á stærra tjaldi en í kjallaranum í Háskólabíói.
* * *
Fór líka á Fram – Þór í handboltanum í gær. Það var langt frá því að vera snilld. – Óskaplega voru mínir menn lélegir. Spurning um að sleppa því alveg að fylgjast með handboltanum í vetur…