Ég taldi mig alltaf þokkalegan í líffræði, amk. líffræði mannslíkamans. Sú var þó ekki raunin.
Eftir að verkirnir sem lýst var í síðustu færslu tóku að ágerast, fór ég á spítalann. Þar var ég búinn undir fregnir af sprungnum botnlanga og bráðaskurðaðgerðum, en fékk þær fréttir að botnlanginn væri hinumeginn í kviðnum.
Rannsókn á sýnum leiddi í ljós að ekki væri um sýkingu að ræða og með þukli og þreifingum strikuðu læknarnir ýmsa aðra möguleika út af listanum. Að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að annað hvort sé ég með kviðslit eða tognun á kviðvegg. Ekki vissi ég að það væri hægt að togna á þessum stað, en í það minnsta er stefnan tekin á að láta þetta lagast af sjálfu sér – sem er nokkur skaði því ég var farinn að hlakka til að halda blaðamannafundi á sjúkrastofunni ber að ofan eins og Steingrímur Joð.
# # # # # # # # # # # # #
Leikhúsið í kvöld. Eldhús eftir máli í Þjóðleikhúsinu. Það verður eflaust bráðskemmtilegt. Vonandi verður Ólína þó upplitsdjarfari en í gær. Tanntakan gengur ekki átakalaust fyrir sig og í gær var hitinn kominn í 38,7 stig. Greyið litla.
# # # # # # # # # # # # #
FRAM lætur ekki að sér hæða í handboltanum. Efsta sætið og mótið rúmlega hálfnað. Hver hefði trúar þessu?