KRR

Á vef KSÁ er sagt frá því­ að búið sé að safna saman úrslitum í­ öllum mótum sem KRR, Knattspyrnuráð Reykjaví­kur, hafi staðið fyrir. (Reyndar virkar ekki tengillinn hjá mér á þennan úrslitagrunn, en það hlýtur að vera byrjunaörðugleiki sem verður kippt í­ liðinn.)

Ég er spenntur að sjá hversu í­tarlegur þessi upplýsingabanki verður. Með metnaðarfullum skrásetjurum mætti búa til verulega góðan upplýsingabanka um gömul knattspyrnuúrslit, enda gerði KRR lengi vel kröfu til þess að félög skiluðu inn nákvæmum listum yfir leikmannahópa sí­na og ekkert félag mátti leika svo mikið sem formlegan æfingarleik án þess að biðja um leyfi.

Á sama tí­ma og hægt er að finna leikmannalista allra félaga í­ öllum flokkum fyrstu áratugi knattspyrnuí­þróttarinnar á Íslandi, þá er það sérkennileg staðreynd að menn vita ekki einu sinni hverjir urðu markakóngar Íslandsmótsins í­ knattspyrnu 1920 til 1935. Markaskorurum var einfaldlega ekki haldið til haga.

Afi heitinn sagði mér frá því­ að hann hefði sem formaður í­ FRAM látið taka saman býsna tæmandi lista yfir knattspyrnuleiki allra liða í­ öllum aldursflokkum frá upphafi og fram undir miðja öldina. 1961, þegar Valsmenn áttu 50 ára afmæli fengu þeir skránna lánaða til að nota við útgáfu afmælisrits. Þeim tókst að týna henni og með henni óbætanlegum upplýsingum. Ef til vill vissum við nú hverjir hefðu skorað flest mörkin á þriðja áratugnum ef ekki væri fyrir slugsaskap Valsmanna eða það dómgreindarleysi afa að láta eitthvað dýrmætt í­ hendur Hlí­ðarendapilta.

KSÁ hefur gert vel í­ að safna gömlum fótboltaúrslitum, en það væri hægt að gera svo miklu, miklu betur. Sjálfur er ég að komast á þá skoðun að einhvers konar Wikipediu-form þyrfti til að safna þessum upplýsingum saman, þannig gætu grúskarar hver um sig bætt í­ sarpinn.  Hvernig væri að hið góða fólk á Wikipediunni tæki að sér þetta verkefni og önnur sambærileg. Hvar getur maður t.d. fundið lista yfir handboltaúrslit frá upphafi á aðgengilegum stað – eða þróun meta í­ frjálsum eða sundi?

# # # # # # # # # # # # #

Steinunn gæti farið í­ stera á morgun. Aðdragandinn er skammur og lí­till tí­mi til undirbúnings. Hún er komin með nýjan lækni og sá mun senda hana á Landspí­talann á dagdeild, en ekki í­ innlögn á Sankti Jó eins og verið hefur. Það verða viðbrigði að hafa Steinunni heima í­ miðjum sterakúr. Verð að viðurkenna að ég er með smá hnút í­ maganum yfir þessu.

En fyrir öllu er að stelpan verði aftur hress og sterk.

# # # # # # # # # # # # #

Blaðið gerir sér mat úr Moggagrein minni frá því­ á mánudeginum. Ég hef nú skrifað nokkrar blaðagreinarnar í­ gegnum tí­ðina, en ekki átti ég von á að þessi þætti fréttnæm. „Meðlimur í­ stjórnmálaflokki lýsir mannkostum frambjóðanda þessa sama stjórnmálaflokks!“ – Kannski ekki alveg fyrirsögn sem hrópar á mann?

Ég stend þó vitaskuld við hvert orð í­ greininni. Svandí­s Svavarsdóttir er mjög frambærileg og mikið gleðilefni að fá hana í­ borgarmálin.

# # # # # # # # # # # # #

Óskaplega var þessi Barcelona : Chelsea-leikur bragðdaufur.  Er ekki bara málið að halda með Lyon í­ þessari keppni?